Tveir hafa verið greindir með kórónaveiruna í Bretlandi. BBC greinir frá þessu á vefsíðu sinni og segir að þeir fái nú aðhlynningu innan heilbrigðiskerfisins.

Að sögn BBC tengjast einstaklingarnir fjölskylduböndum en ekki kemur fram hvernig og er engar meiri upplýsingar að fá að svo stöddu. Breska heilbrigðiskerfið er sagt vera einstaklega vel í stakk búið til þess að takast á við sýkingar á borð við kórónaveiruna.

Tala látinna hækkar hratt og er talið að nú séu 213 látnir úr veirunni, flestir í Hubei-héraði í Kína. Tíu þúsund eru taldir vera sýktir um heim allan og dreifist hún nú hratt út.

Alþjóða heilbrigðisstofnunin hefur lýst yfir neyðarástandi á heimsvísu, sem gerir henni meðal annars kleyft að samræma aðgerðir alþjóðlega.