CO­VID-19 kóróna­veiran lætur til sín taka út fyrir land­steina Kína og hefur nú dreift sér til allra heims­álfa. Fyrsta til­vik í Suður-Ameríku greindist í Brasilíu í dag en sá smitaði hafði ný­verið verið í Ítalíu.

Yfir 80 þúsund manns hafa greinst með veiruna á heims­vísu og hafa rúm­lega 2700 látist af völdum veirunnar hingað til. Veiran hefur nú borist til minnst 40 ríkja.

Ný­smitum fjölgar í Asíu

Al­þjóða­heil­brigðis­stofnunin segir ríki utan Kína „ein­fald­lega ekki til­búin“ til að takast á við far­aldurinn. Veiran hefur reynst einkar skæð í Suður-Kóreu þar sem yfir 1100 manns hafa greinst með sjúk­dóminn og tólf látist.

Dánar­tala hækkaði einnig í Íran í nótt og hefur sjúk­dómurinn nú dregið 16 manns til dauða þar í landi. Tæp­lega hundrað manns hafa smitast af veirunni þar með talinn starfandi heil­brigðis­ráð­herra landsins. Þá hefur því verið haldið fram að raun­veru­leg tala smitaðra sé mun hærri.

Evrópa tekur kipp

Veiran hefur einnig dreift sér hratt innan Evrópu eftir að hafa tekið snöggan kipp á Ítalíu síðast­liðna helgi. Rúm­lega 320 manns hafa smitast frá því veiran greindist þar í landi og alls hafa ellefu látið lífið af völdum veirunnar á að­eins fjórum sólar­hringum. Enn hefur fyrsti smit­berinn ekki fundist og því ekki hægt að rekja upp­­drög sjúk­­dómsins.

Í gær til­­kynntu heil­brigðis­yfir­­völd Sviss, Austur­­ríkis og Króatíu um fyrstu smit þar í landi og búast má við því að fleiri lönd bætist dag­­lega á listann á næstu dögum.