Tilkomumikill kirkjuturninn vísar hug til hæða á Hólum í Hjaltadal og það er hátíðlegt að aka þangað heim í hvítri mjöllinni. Við Fréttablaðsfólk rennum í hlað á biskupssetrinu. Þar fagna okkur hjónin Solveig Lára Guðmundsdóttir og Gylfi Jónsson og við erum ekki fyrr sest inn í stofu en séra Gylfi snarar þangað inn kaffi og smákökum. Þar sem um tvo presta er að ræða á sama heimilinu eru þau spurð hvort trúariðkun sé ríkur þáttur í daglegu lífi þeirra. „Já, mjög svo,“ svarar Solveig Lára að bragði. „Við biðjum alltaf borðbæn og sameiginlega kvöldbæn. Allt helgihald byggist á því að sá sem þjónar eigi sitt trúarlíf, annars verður hann eða hún aldrei trúverðug í boðuninni. Mitt fyrsta verk þegar ég vakna á morgnana er að ná í símann fram í skrifstofu, því ég sef ekki með hann í svefnherberginu, fara aftur upp í rúm, inn á biblian.is og draga mannakorn, afrita það og setja það inn á fésbókarsíðuna mína. Síðan hefjast dagleg störf.

Mannakorn? hvái ég, eins og sauður. „Já, það er biblíuvers sem við reynum að hafa sem leiðarstef inn í daginn.

Á biskupsetrinu ríkir ylur og eining. Gylfi, Solveig Lára og heimilishundurinn Glói fylgja gestunum til dyra.
Fréttablaðið/Anton Brink

Hálft landið undir

Gylfi er hættur prestskap en Solveig Lára er vígslubiskup og kveðst lítið vera í beinu safnaðarstarfi nema hvað hún messi alltaf á Hólum á jóladag, páskadag, gamlársdag og hvítasunnu. Þá daga þurfi Halla Rut Stefánsdóttir, sóknarprestur í Hofsós- og Hólaprestakalli, að þjóna í mörgum kirkjum. „Biskupsstarfið er ólíkt prestsstarfinu,“ segir Solveig Lára og talar af reynslu því hún var þjónandi prestur á Möðruvöllum og þar áður á Seltjarnarnesi. „Biskupsstarfið er yfirumsjónarstarf, ég hef mikið samband við presta á Norður- og Austurlandi því biskupsdæmið nær allt frá Prestbakka í Hrútafirði að Hofi í Álftafirði eystri. Ég er því talsvert á ferðinni og svo er ég líka hluti af yfirstjórn kirkjunnar sem er með höfuðstöðvar í Reykjavík og þarf oft að fara á fundi þar líka.“

Auk þessa er Solveig Lára formaður stjórnar Guðbrandsstofnunar sem er samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Háskólans á Hólum og Þjóðkirkjunnar um menningarstarfsemi á Hólum. „Við erum með tónleika vikulega allt sumarið, frá júní út ágúst og fræðafundi annan hvern mánudag alla vetrarmánuðina og bjóðum bæði tónlistarfólkinu og fræðafólkinu að dvelja hér í viku. Auk þess er ein ráðstefna á ári í samstarfi við virtar stofnanir í samfélaginu, nú erum við að undirbúa þá sem verður í vor, hún verður um réttlætið í samfélaginu. Þar verða fulltrúar frá Öryrkjabandalaginu, ASÍ, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Jafnréttisstofu og Rithöfundasambandinu. Það fer mikill tími í að skipuleggja þetta allt. Svona ráðstefna er gott dæmi um hvernig kirkjan getur haldið úti öflugu andlegu velferðarstarfi.“

Svo er það prestsvígsluhlutverkið. „Ég var að vígja prest 1. desember hér á Hólum, hann er að koma til þjónustu á þessu svæði. Ég er búin að vígja þrjá presta hér í haust, kornungt fólk sem er að koma til starfa, það er skemmtilegt. Það eru mikil kynslóðaskipti að verða í kirkjunni, fjöldi presta er að fara á eftirlaun og margt ungt fólk í startholunum því atvinnuleysi hefur verið meðal ungra guðfræðinga. Við höfum misst marga til Noregs, ég held það séu tuttugu íslenskir prestar starfandi í Noregi. En nú eru þeir að tínast til baka einn af öðrum, til dæmis ungur maður sem var vígður hér til starfa nýlega, hann var búinn að starfa í Noregi sem óvígður prestur. Þetta var í fyrsta skipti sem ég vígi mann sem er bæði búinn að skíra og jarða. Hann verður héraðsprestur í Eyjafjarðar-og Þingeyjarprófastsdæmi. Sú endurnýjun sem er að eiga sér í stað er frábært dæmi um að kirkjan á enn erindi í samfélaginu og mun sækja af krafti inn í framtíðina í samfylgd með þjóðinni.“

Í Auðunarstofu er skrifstofa vígslubiskups og einnig fyrirlestrasalur sem notaður er fyrir fræðafundi. Húsið gáfu Norðmenn Hólastað í stað annarrar Auðunarstofu sem þar stóð í fimm hundruð ár, frá 1300 til 1800, er hún var rifin.
Fréttablaðið/Anton Brink

Fólk finnur helgi staðarins

Í Skagafirði eru yfir tuttugu kirkjur. Hvernig gengur að halda uppi safnaðarstarfi í þeim og sinna viðhaldi þeirra?

„Þetta er góð spurning. Um kirkjustarfið er það að segja að í langflestum litlu kirkjunum er bara messað einu sinni á ári, annaðhvort á jólum eða sumrin. Varðandi viðhaldið þá hafa sóknargjöld farið hríðlækkandi síðustu ár, við fáum ekki nema örlítið brot af því sem við eigum að fá, lögum samkvæmt. En þau nægja til að hita kirkjurnar upp einu sinni á ári og borga organista jafn oft. Viðhald er ekkert til að ræða um. Einu peningarnir í það eru þeir sem fást frá Minjavernd. Þannig er staðan. Sumir sækja hart á Minjavernd og kirkjur hafa verið gerðar upp fyrir stórfé. Aðrir finna sig ekki í að verja almannafé í að halda við þessum húsum. Þéttleiki kirknanna hér kemur til af því að þær eru margar byggðar milli 1850 og 1870 og þá var miðað við að fólk færi ríðandi eftir morgunmjaltir til messu, drykki kaffi á kirkjustað og væri komið aftur heim fyrir kvöldmjaltir. Það grunaði ekki að nokkrum áratugum seinna yrði komið eitthvað sem héti bíll. En það gerðist.“

Hóladómkirkja er aðalaðdráttarafl ferðamanna heim að Hólum, að sögn Solveigar Láru. „Kirkjunnar er getið í mörgum ferðabókum þannig að hingað koma túristar yfir sumartímann. Langf lestir koma vegna sögu staðarins en upplifunin verður oft trúarleg því algengt er að fólk finni fyrir sterkum hughrifum þegar það kemur inn í kirkjuna – og jafnvel þó það fari ekki inn þá finnur það fyrir helgi staðarins. Það er mjög sérstakt.“ Spurð hvort kirkjan sé vinsæl til kirkjulegra athafna svarar hún: „Það er aðallega fólk sem hefur tengsl við staðinn sem lætur skíra hér og gifta, svo eru auðvitað jarðarfarir fólks sem býr í söfnuðinum. En ég er svolítið hissa á að kirkjan skuli ekki vera vinsælli fyrir hjónavígslur en hún er, því hér er góður salur fyrir 100- 150 manna veislu og einnig hægt að gista, þannig að þetta er ekta brúðkaupsstaður.“

Sjálf kveðst Solveig Lára lítið sinna athöfnum. „Það var mesta breytingin frá því sem ég var í áður og ég saknaði þess til að byrja með en komst svo í aðra rútínu. Ég er búin að skíra yfir þúsund börn og ferma annað eins í gegnum tíðina. Ég starfaði í sautján ár sem prestur á höfuðborgarsvæðinu og síðan tólf ár á Möðruvöllum, svo er ég búin að vera sjö ár hér, þannig að samanlagt gera þetta hundrað ár eða eitthvað svoleiðis! Þetta hefur verið ánægjulegur starfstími.“

„Það er einstaklega áhugavert og ánægjulegt að kynnast því unga fólki sem er að koma inn í prestsstarfið, það er einlægt trúfólk, vandað og vel gert,“ segir Solveig Lára.
Fréttablaðið/Anton Brink

Má ekki láta keðjuna slitna

Solveig Lára er ósátt við að unga kynslóðin kynnist almennt ekki lengur biblíusögum. „Sum börn sem eru að koma til fermingarundirbúnings hafa ekki heyrt eina einustu biblíusögu. Þó tiltölulega stutt sé síðan hætt var að kenna þær í skólum þá er þetta fljótt að gerast. Nú er að koma upp í háskóla fólk sem aldrei hefur lesið biblíusögur og það hefur farið mikils á mis. Heimsbókmenntirnar gera ráð fyrir að fólk hafi vissan grunn – orðatiltæki, ljóð og tilvitnanir vísa í biblíusögurnar, við getum nefnt söguna um miskunnsama Samverjann eða um bjálkann og f lísina. Ungt fólk veit ekkert um hvað er verið að tala. Ég er ekki að kenna skólunum um, heldur varpa ábyrgðinni á fjölskyldur og foreldra. Þeirra ábyrgð er miklu meiri eftir að skólarnir hættu að taka að sér þetta hlutverk. Foreldrar ættu að fara með börnin í kirkjuna, þar er öf lugt barna- og unglingastarf. Ég höfða líka oft til afa og ömmu og segi þeim að vera ekki feimin við að biðja með barnabörnunum.“

Ekki hefur Solveig Lára samt miklar áhyggjur af minnkandi þjóðkirkjuaðild, telur að breytt skráningarfyrirkomulag sé stór þáttur í henni. „Núna fara börn ekki lengur sjálf krafa inn í þjóðkirkjuna, þó þau séu skírð af presti heldur þurfa foreldrar að skrá þau þar, þetta eru ekki allir meðvitaðir um,“ útskýrir hún. „Það er þó rúmlega meiri hluti þjóðarinnar í þjóðkirkjunni og vaxandi fjöldi í kaþólsku kirkjunni, því margir útlendingar sem hingað f lytja eru kaþólskir. Söfnuðir Fríkirknanna í Hafnarfirði og Reykjavík eru vaxandi, auk þess eru margir aðrir kristnir söfnuðir og ég hugsa að samtals séu um 90% þjóðarinnar kristin. Meðan svo er þurfum við ekki að hafa áhyggjur en verðum samt að vera vakandi gagnvart ábyrgð okkar á ungu kynslóðinni. Það er ekki nóg að við séum kristin, við þurfum að miðla trúnni áfram til næstu kynslóðar. Það hefur verið gert í yfir 2000 ár að ein kynslóð hefur miðlað til annarrar, það má ekki láta þessa keðju slitna.“

Þú talar um að fólk sé að koma í Háskólann sem ekki þekki dæmisögurnar úr biblíunni. Sækir fólk samt enn í að læra til prests?

„Það hefur lengi verið vinsælt að fara í guðfræðideildina og ég hef þakkað það hinu góða barnaog unglingastarfi í kirkjunni. En vegna atvinnuleysis meðal ungra guðfræðinga undanfarið hefur dregið úr aðsókn í deildina. Fólk er ekki að leggja á sig fimm ára nám til að hanga atvinnulaust að því loknu. Þannig að nú þegar svona margt ungt fólk er að koma inn í kirkjustarfið þá gætum við upplifað prestaskort um tíma. Vonandi eykst þá aðsóknin að deildinni á ný. Það er einstaklega áhugavert og ánægjulegt að kynnast því unga fólki sem er að koma inn í prestsstarfið, það er einlægt trúfólk, vandað og vel gert. Mér finnst því bjart fram undan í kirkjunni.“ Aðskilnaður ríkis og kirkju fer líka ágætlega í Solveigu Láru. „Hinn stóri aðskilnaður fór eiginlega fram um áramótin 1997-1998, þegar ríkið tók við kirkjujörðunum. Afgjald af þeim var bundið í laun fyrir 138 prestsembætti. Nú um áramótin verður sú breyting að ekki verður miðað við ákveðinn embættafjölda heldur ákveðna fjárupphæð. Það býður upp á allt annað vinnuumhverfi innan kirkjunnar og auðveldar okkur að sameina prestaköll, auka samvinnu og jafna þjónustubyrði.“

Solveig Lára og Glói spásséra um Hólastað í jólasnjónum.
Fréttablaðið/Anton Brink

Jólin á Hólum

Nú er vígslubiskupinn beðinn að lýsa jólahaldi á staðnum. Hvað er til dæmis á borðum á heimili þeirra hjóna á aðfangadagskvöld? „Við erum alltaf með gæs. Það er danskur siður frá mínu bernskuheimili. Við fylgjum líka þeim gamla danska sið að hafa jólagrautinn á undan gæsinni, fátækir höfðu það þannig til að fylla svolítið í magana áður en að steikinni kom. Svo er heimatilbúinn ís á eftir.

En fyrst setjumst við hér niður í stofunni klukkan sex, prúðbúin og hlustum á útvarpsguðsþjónustuna. Borðum ekki undir messunni eins og margir gera. Ég kannski stelst aðeins frá til að hræra í einhverju. Setjumst svo að matborðinu eftir messu og síðan eru það pakkarnir. Klukkan ellefu á aðfangadagskvöld förum við út í kirkju. Þá er fjölskyldustund fyrir alla sem vilja, rétt rúmur hálftími, sungnir fjórir jólasálmar, jólaguðspjallið lesið og örstutt hugleiðing. Ég sé um þessa stund. Þegar við komum heim setjumst við aftur niður og lesum á jólakortin. Á jóladag er stór og mikil guðsþjónusta með hátíðasöngvum og öllu tilheyrandi klukkan tvö. Ég held líka utan um hana og er alltaf með jólakaffi og tilheyrandi hér heima á eftir. Svo messa ég á gamlársdag klukkan tvö, það er mjög huggulegt. Hápunkturinn er þegar ég fæ að hringja kirkjuklukkunum klukkan tólf á miðnætti á áramótunum. Það er hátíðlegt. Byrja á mínútunni tólf og hringi í þrjár mínútur. Um leið og ég er búin byrjar flugeldasýning. Allir íbúar Hóla safnast saman hér uppi á Hólnum.“

Misjafnt er hversu margir eru á heimilinu um jólin, að sögn Solveigar Láru. „Annaðhvort koma allir eða enginn,“ segir hún hlæjandi. „Í fyrra vorum við tvö og barnabörnunum fannst það algerlega hræðilegt, en jólin komu samt alveg. Nú verður meira fjör. Yngsta dóttir mín býr í New Orleans og hún kemur til landsins og kærastan hennar, þær verða báðar hér. Önnur dóttir mín býr í Reykjavík, á einn son og kemur með hann, svo væntanlega koma sonur minn og tengdadóttir, sem búa líka í Reykjavík, milli jóla og nýárs með sína tvo stráka, svo þetta verður mjög gaman. Gylfi á einn son sem býr líka í New Orleans en hann kemur ekki heim um jól. Við Gylfi eigum engin börn saman, bara hundinn, köttinn og hænsnin!“

Jörðin okkar og flóttafólkið

Solveig Lára segir andlega velferð hvers einstaklings jafn mikilvæga samfélaginu og félagslega velferð og öf lugt heilbrigðiskerfi. „Hún er lykilþáttur í hamingju fólks og lífsfyllingu. Þar hefur kirkjan stórt hlutverk. Umhverfismálin eru líka köllun kirkjunnar og réttindi flóttafólks. Við eigum að gæta að náunga okkar á hverjum tíma og jörðin og flóttafólkið eru „náungi okkar“ í dag. Við verðum að vernda jörðina. Kirkjan hefur verið með stóra fyrirlesara á Arctic Circle ráðstefnunni og öll predikun og allt starf í kirkjunni hefur verið helgað umhverfinu á tímabili sköpunarverksins frá miðjum september fram í miðjan október í mörg ár en betur má ef duga skal.

Hvað flóttafólkið varðar þá erum við með fimm presta á höfuðborgarsvæðinu sem þjóna innflytjendum. Það á að vera áhersluatriði kirkjunnar að slá skjaldborg um fjölskyldur með lítil börn sem eru á flótta hér á landi undan harðstjórn eða stríðsástandi í heimalandinu. Að vísa þeim úr landi, jafnvel um miðjar nætur, á aldrei að gerast – það er nú bara jólaboðskapurinn í hnotskurn.“