„Þetta er búið að vera rosa­lega skemmti­legt,“ segir Viðja Karen Vignis­dóttir, tíu ára söng­kona á Húsa­vík. Viðja er ein þeirra sem tóku þátt í flutningi á laginu Husa­vik – My Ho­met­own á Óskars­verð­launa­há­tíðinni sem fram fór að­fara­nótt mánu­dags. Þar söng hún í kór á­samt sex­tán stúlkum og sænsku söng­konunni Molly Sandén.

Viðja og stelpurnar í kórnum fengu að vaka fram eftir og horfa á Óskars­verð­launin saman á Hvala­safninu á Húsa­vík. „Það var keyptur hellingur af nammi og við horfðum á þetta saman, það komu ekki allar en eigin­lega allar,“ segir Viðja.

Hún segist hafa fundið fyrir stolti þegar hún sá sig í sjón­varpinu og að það hafi verið skrítin til­hugsun að hún væri í sjón­varpinu um allan heim. „Það var rosa­lega gaman að sjá þetta og rosa­lega spennandi,“ segir Viðja. „En það var líka dá­lítið skrítið og við fórum eigin­lega bara allar að hlæja þegar þetta byrjaði,“ bætir hún við og skellir upp úr. Spurð að því hvort hún og hinar stelpurnar hafi verið svekktar þegar í ljós kom að Husa­vik hreppti ekki verð­launin segir Viðja að þær hafi verið „frekar fúlar“.

Viðja Karen Vignisdóttir, söngkona frá Húsavík, situr í miðjunni ásamt vinkonum sínum.
Mynd/Aðsend

Hafði aldrei áður sungið í kór

Kórinn var sér­stak­lega settur saman fyrir mynd­bandið sem sýnt var á há­tíðinni og hefur Viðja aldrei áður sungið í kór. Þrátt fyrir það segist hún vel geta hugsað sér að verða söng­kona þegar hún verður eldri. Þá segir hún upp­tökurnar á mynd­bandinu hafa verið sér­stak­lega skemmti­legar.

„Þegar við hittum Molly þá vorum við svo glaðar að við bara öskruðum,“ segir Viðja. „Það tók alveg tvo daga að gera þetta. Fyrsta daginn var þessu frestað en það var ekkert mál, við gerðum þetta bara næsta dag,“ segir Viðja hóg­vær.

„Við áttum bara að vera að horfa á einn mann sem var bara alltaf að gera það sama og það voru mynda­vélar allt í kringum okkur, það var dá­lítið erfitt að horfa ekki í þær,“ segir Viðja. Hún segir að stelpurnar hafi einnig stundum þurft að bíða á meðan á tökunum stóð og þá hafi verið mikil­vægt að vera þolin­móð.

„En það var reyndar eitt sem okkur fannst öllum dá­lítið gaman, við fengum nefni­lega rútu sem við áttum að bíða í og við vorum alltaf að spila lög þar og syngja með inni í rútunni,“ segir Viðja. Mesta spilun fékk auð­vitað Husa­vik og stelpurnar nýttu tímann sem fór í bið til að æfa sig.

Lagið Husa­vik er úr kvik­myndinni Euro­vision Song Con­test: The Story of Fire Saga, og var til­nefnt sem besta upp­­runa­­lega lag í kvik­­mynd. Lagið Fig­ht for You, úr myndinni Judas and the Black Messiah, hreppti styttuna eftir­sóttu.

Stelpurnar létu fara vel um sig yfir Óskarnum.
Mynd/Berglind Ragnarsdóttir