Sjálf­stæðis­flokkurinn mun greiða fyrir tap á sölu úr sjoppu sem var á vegum for­eldra­fé­lags stúlkna sem kepptu á yngri­flokka­móti í körfu­bolta. Flokkurinn grillaði frelsis­borgara fyrir framan KR heimilið á meðan mótið fór fram á sunnu­dag.

„Sjálf­stæðis­flokkurinn, þennan klukku­tíma sem þau voru hérna ætla að styrkja og styðja for­eldra­fé­lagið sem var með sölu hérna um upp­hæð sem fengin er frá meðal­tali af sölu á laugar­daginn,“ segir Bjarni Guð­jóns­son, fram­kvæmda­stjóri KR í sam­tali við Frétta­blaðið.

For­eldra­fé­lag á vegum KR var með sjoppu opna á körfu­bolta­móti sem fór fram á sunnu­dag, safnað var fyrir keppnis­ferðum með á­góðanum frá sjoppunni. Margir furðuðu sig á því að Sjálf­stæðis­flokkurinn hefði mætt og „rænt“ sölu frá sjoppunni, en svo var ekki.

Bjarni segir að ham­borgara­bíllinn hafi verið þarna með leyfi frá KR og það sem seldist ekki á meðan Sjálf­stæðis­flokkurinn var á staðnum verði greitt upp sem styrkur til for­eldra­fé­lagsins.

„Við tókum þá á­kvörðun hér í fé­laginu að segja ekki nei við neinum. Við erum ekki pólitísk og fé­lagið er ekki pólitískt og við störfum með þeim sem eru í þessu að hverju sinni,“ segir Bjarni.

Hann segist hafa verið í sam­bandi við fólk frá ýmsum stjórn­mála­flokkum.