Vísinda­menn Unesco, Menningar­mála­stofnun Sam­einuðu Þjóðanna, lögðu til fyrr á árinu að Kóral­rifið mikla yrði sett á lista yfir heims­minjar í hættu. Það hefði verið í fyrsta sinn sem það væri gert vegna hnatt­rænnar hlýnunar en að lokum var á­kveðið að gera það ekki.

Í grein hjá The Guar­dian segir að vísinda­mannanna meti rifið vera í mikilli hættu vegna hnatt­rænnar hlýnunar og ætti að vera á listanum vegna þess. Ríkis­stjórn Ástralíu lagðist gegn til­lögunni og segir hana hafa verið gerða í flýti.

Ein­hverjir aðilar innan ferða­mála­geirans í Ástralíu hafa lýst yfir á­hyggjum yfir til­lögunni. Þá er talið lík­legt fólk muni ekki vilja heim­sækja Ástralíu í jafn miklum mæli ef hún yrði samþykkt.

Telur ákvörðunina pólitíska

Sussan Ley um­hverfis­ráð­herra Ástralíu segir tillöguna hafa komið þeim að ó­vörum og sakar Unesco um að leyfa pólitík að ráða för. Hún segir að stofnunin hefði átt að skipu­leggja heim­sókn til kóral­rifsins áður en á­kvörðun væri tekin.

Unesco hafnar á­sökunum Ley og segir að til­löguna vera á­kall um að­gerðir fyrir kóral­rifið. Um­hverfis­hópar í Ástralíu studdu heils­hugar við tillöguna.

Kóralrifin séð að ofan frá
Fréttablaðið/AFP

Stofnunin hefur nú á­kveðið að kóral­rifin verði ekki færð á listann heldur verði farin sendi­för til rifsins og stöðu­mat búið af áströlskum yfirvöldum í byrjun næsta árs. Þá verður á­kvörðunin endur­skoðuð að ári liðnu.

Árið 2014 var einnig lagt til að færa Kóralrifið mikla á áhættulista Unesco en ekki varð heldur úr því þá. Rifið er um 348 þúsund ferkílómetrar á stærð og inniheldur fjölbreytt lífríki.