Kópavogsvær uppfyllir ekki lagalegar skyldur sínar um jafnréttissjónarmið í þremur nefndum og ráðum á vegum bæjarstjórnar. Þetta kemur fram í svari Auðar Kolbrár Birgisdóttur lögfræðings velferðasviðs Kópavogsbæjar við fyrirspurn Sigurbjargar Erlu Egilsdóttur bæjarfulltrúa Pírata í Kópavogi.
Sigurbjörg greinir frá þessu sjálf á Facebook, en þar sem hún að minnihlutinn í Kópavogi hafi strax gert athugasemd, þegar bæjarstjórn Kópavogs skipaði fulltrúa í nefndir og ráð á sínum fyrsta fundi síðasta sumar. Meirihluti Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins virðast ekki hafa aðhafast frekar í málinu.
Samkvæmt ákvæði sveitarstjórnarlaga, sem tekur á framlagningu lista við hlutfallskosningu, á að minnsta kosti einn af hvoru kyni að vera á lista ef velja á tvo eða þrjá fulltrúa í nefnd. Ef velja á fjóra eða fimm fulltrúa eiga að minnsta kosti tveir af hvoru kyni að vera á lista, og ef velja á sex til átta í nefnd skulu að minnsta kosti þrír af hvoru kyni vera á lista.
Í svari lögfræðings velferðasviðs við fyrirspurn Sigurbjargar kemur fram að kynjahlutfall í nefndum og ráðum á vegum Kópavogsbæjar sé nánast jafnt. 47,9 prósent nefndarfulltrúa eru konur og 52,1 prósent karlar, en enginn fulltrúi er með kynhlutlausa skráningu
„Flestar nefndir eru með jafn kynjahlutfall innanborðs en nokkrar skera sig út: hafnarstjórn, jafnréttis- og mannréttindaráð, skipulagsráð, þegar litið er til aðal og varamanna saman en stenst kröfur þegar einungis aðalmenn eru taldir, og umhverfis- og samgöngunefnd,“ segir í svarið lögfræðings.
Á Facebook segir Sigurbjörg að nú sé hálft ár liðið síðan minnihlutinn mótmælti kynjahlutfalli í nefndum og ráðum bæjarins, en engar breytingar hafa verið gerðar.
„Við í minnihlutaflokkunum gætum alltaf að þessu við skipan okkar fólks en það er ekki að heyra á fulltrúum Sjálfstæðisflokks og Framsóknar að þau hafi hug á að leiðrétta sinn hlut. Enda þarf ekkert að framfylgja lögum nema eftir því sem hentar hverju sinni, eða hvað?,“ segir Sigurbjörg.
Ekki náðist í Ásdísi Kristjánsdóttur bæjarstjóra Kópavogs, við vinnslu fréttarinnar.