Kópavogsbær svarar hvorki spurningum um illa farið parhús við Skólagerði 47 né ábyrgð gagnvart íbúum sem þar bjuggu.

Þetta kemur fram í skriflegu svari Sigríðar Bjargar Tómasdóttur, almannatengils Kópavogsbæjar, við fyrirspurn Fréttablaðsins. Blaðið greindi í gær frá áhyggjum Andrej Holbicka, eiganda annars hlutans af parhúsinu, af mögulegum viðhaldskostnaði vegna vanrækslu fyrrverandi eiganda hússins.

Frétt um húsið birtist á vef Fréttablaðsins í fyrradag. Þar kom fram að í auglýsingu sé áhugasömum bent á að bóka skoðun. Þeim sem vilja skoða húsið er bent á að gera það með fagaðilum og vera í viðeigandi klæðnaði af heilsufarsástæðum. Eignin þarfnist algjörrar endurnýjunar að innan og utan, sökum rakaskemmda og myglu.

Samkvæmt því sem Fréttablaðið kemst næst bjó síðasti eigandi í húsinu þar til í júní í fyrra. Var það níræður karlmaður sem lést í fyrrasumar. Eiginkona hans lést 84 ára gömul á árinu 2016.

Ábyrgð bæjarins

Fréttablaðið spurði um ábyrgð Kópavogsbæjar á velferð hjónanna og um viðbrögð bæjarins við um­leitunum Andrej nágranna þeirra sem hafði áhyggjur af algjöru og langvarandi sinnuleysi gagnvart viðhaldi á hinum helmingi hússins.

„Þarna bjuggu eldri hjón um langt árabil í húsnæði sem byggingafróður maður og fasteignasalan lýsa sem bráðheilsuspillandi. Komu ekki ábendingar og vísbendingar um að þarna væri eitthvað mikið að og leit aldrei neinn frá bænum til fólksins og kannaði ástandið?“ segir í fyrri spurningu Fréttablaðsins til Kópavogsbæjar.

„Andrej Holbicka, eigandi að Skólagerði 49, segist ítrekað hafa leitað til Kópavogsbæjar vegna vanrækslu eiganda að Skólagerði 47 á viðhaldi á því húsi og vegna þess að hann hafi haft áhyggjur af því að kostnaður við viðhald Skólagerðis 47 myndi lenda síðar á honum. Hvers vegna var ekki brugðist við áhyggjum Andrej?“ spurði Fréttablaðið enn fremur.

„Kópavogsbær er ekki aðili að málinu og ekki húseigandi og getur ekki tjáð sig um málið,“ svaraði Sigríður Björg Tómasdóttir, almannatengill bæjarins.

Er blaðið spurði hvort skilja mætti svar Kópavogsbæjar þannig að bærinn hygðist ekki svara neinu varðandi ábyrgð sína á velferð íbúanna sem um ræðir svaraði Sigríður:

„Kópavogsbær getur ekki tjáð sig um málefni einstaklinga, hvort sem þeir eru lífs eða liðnir.“

Vísaði Sigríður Björg síðan á heimasíðu Kópavogsbæjar þar sem upplýsingar eru um þjónustu bæjarins til handa eldri borgurum.