Kópa­vogs­bær er grunaður um al­var­legt verk­falls­brot þegar ræsti­tæknir hjá bænum var beðinn um að þrífa bæjar­stjórnar­sal Kópa­vogs­bæjar fyrir bæjar­stjórnar­fund í miðju verk­falli Eflingar. Ræsti­tæknirinn er fé­lags­maður Eflingar og átti því að vera í verk­falli. Þetta stað­festir Viðar Þor­steins­son, fram­kvæmda­stjóri Eflingar, í sam­tali við Frétta­blaðið. „Við teljum nokkuð ljóst að um þarna sé um verk­falls­brot að ræða,“ segir Viðar. Framhald málsins er til skoðunar hjá lögmönnum Eflingar.

Sam­kvæmt heimildum Frétta­blaðsins var óskað eftir starfskröftum konunnar og henni lofað auka greiðslu fyrir að mæta og þrífa salinn fyrir bæjar­stjórnar­fund á þriðju­daginn í þessari viku. Efling frestaði verk­falls­að­gerðum sínum frá og með mið­nætti sama dag og því var verk­fall fé­lags­manna enn í gildi þegar at­vikið átti sér stað.

„Þetta er tómur mis­skilningur“

Jóhannes Ævar Hilmars­son yfir­hús­vörður hjá Kópa­vogs­bæ segir í sam­tali við Frétta­blaðið að um tóman mis­skilning sé að ræða.

„Þetta er tómur mis­skilningur og má kenna tungu­mála­örðug­leikum þar um. Konan hélt að verk­fallið væri búið, það myndi enda klukkan 12 á há­degi. Þegar mér var sagt að hún væri í salnum fór ég þangað og sagði henni að verk­fallið endaði á mið­nætti. Hún vildi bara vinna, þetta er svo dug­legt fólk þessar elskur,“ segir Jóhannes. „Ég lét Eflingu vita. Það verður ekkert gert í þessum málum. Þetta var bara tómur mis­skilningur. Hún vildi bara vinna. Þetta er dug­legt fólk.“

Sigríður Björg Tómasdóttir, almannatengill Kópavogsbæjar staðfestir atvikið og segir að þrifin hefðu verið stöðvuð um leið. „Farið var af stað með þrif í einu húsa Kópa­vogs­bæjar, Há­braut 2, eftir há­degi þriðju­dag, áður en frestun á verk­falls­að­gerðum Eflingar tók gildi. Þrifin voru stöðvuð um leið og bent var á að frestun hefði ekki tekið gildi,“ segir Sigríður í samtali við Fréttablaðið.

Bæjarstjórnarfulltrúi mætti fyrr og sá verkfallsbrotið

Upp komst um málið þegar bæjar­stjórnar­full­trúi Pírata, Sigur­björg Erla Egils­dóttir, mætti snemma á skrif­stofur Kópa­vogs­bæjar til að undir­búa sig fyrir bæjar­stjórnar­fund.

„Ég var ný­búin að lesa fréttir af því að samninga­nefnd sveitar­fé­laganna hefði enn einu sinni hafnað til­boði Eflingar og slitið fundi tíu mínútum eftir að hann hófst. Efling á­kvað í fram­haldinu að fresta verk­falls­að­gerðum frá mið­nætti vegna veirufar­aldursins. Ég vissi því varla hvaðan á mig stóð veðrið þegar inn í salinn gengur ein af konunum sem sjá um þrif á hús­næðinu, en þau störf hafa legið niðri í rúman hálfan mánuð vegna verk­falla,“ segir Sigur­björg Erla í sam­tali við Frétta­blaðið en hún til­kynnti málið til Eflingar.

„Á meðan við­kvæmir hópar líða fyrir þjónustu­skerðingu og Efling sýnir mikinn sveigjan­leika varðandi undan­þágur á verk­föllum fyrir þá starf­semi sem sinna bráð­nauð­syn­legri þjónustu, var virki­lega verið að að stunda verk­falls­brot til þess að þrífa að­stöðuna fyrir toppana í bæjar­stjórn? Mér var hrein­lega mis­boðið,“ segir hún enn fremur. Hún komst að því að konan væri fé­lags­maður Eflingar og ætti því með réttu að vera í verk­falli.