Kópavogsbær er grunaður um alvarlegt verkfallsbrot þegar ræstitæknir hjá bænum var beðinn um að þrífa bæjarstjórnarsal Kópavogsbæjar fyrir bæjarstjórnarfund í miðju verkfalli Eflingar. Ræstitæknirinn er félagsmaður Eflingar og átti því að vera í verkfalli. Þetta staðfestir Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, í samtali við Fréttablaðið. „Við teljum nokkuð ljóst að um þarna sé um verkfallsbrot að ræða,“ segir Viðar. Framhald málsins er til skoðunar hjá lögmönnum Eflingar.
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins var óskað eftir starfskröftum konunnar og henni lofað auka greiðslu fyrir að mæta og þrífa salinn fyrir bæjarstjórnarfund á þriðjudaginn í þessari viku. Efling frestaði verkfallsaðgerðum sínum frá og með miðnætti sama dag og því var verkfall félagsmanna enn í gildi þegar atvikið átti sér stað.
„Þetta er tómur misskilningur“
Jóhannes Ævar Hilmarsson yfirhúsvörður hjá Kópavogsbæ segir í samtali við Fréttablaðið að um tóman misskilning sé að ræða.
„Þetta er tómur misskilningur og má kenna tungumálaörðugleikum þar um. Konan hélt að verkfallið væri búið, það myndi enda klukkan 12 á hádegi. Þegar mér var sagt að hún væri í salnum fór ég þangað og sagði henni að verkfallið endaði á miðnætti. Hún vildi bara vinna, þetta er svo duglegt fólk þessar elskur,“ segir Jóhannes. „Ég lét Eflingu vita. Það verður ekkert gert í þessum málum. Þetta var bara tómur misskilningur. Hún vildi bara vinna. Þetta er duglegt fólk.“
Sigríður Björg Tómasdóttir, almannatengill Kópavogsbæjar staðfestir atvikið og segir að þrifin hefðu verið stöðvuð um leið. „Farið var af stað með þrif í einu húsa Kópavogsbæjar, Hábraut 2, eftir hádegi þriðjudag, áður en frestun á verkfallsaðgerðum Eflingar tók gildi. Þrifin voru stöðvuð um leið og bent var á að frestun hefði ekki tekið gildi,“ segir Sigríður í samtali við Fréttablaðið.
Bæjarstjórnarfulltrúi mætti fyrr og sá verkfallsbrotið
Upp komst um málið þegar bæjarstjórnarfulltrúi Pírata, Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, mætti snemma á skrifstofur Kópavogsbæjar til að undirbúa sig fyrir bæjarstjórnarfund.
„Ég var nýbúin að lesa fréttir af því að samninganefnd sveitarfélaganna hefði enn einu sinni hafnað tilboði Eflingar og slitið fundi tíu mínútum eftir að hann hófst. Efling ákvað í framhaldinu að fresta verkfallsaðgerðum frá miðnætti vegna veirufaraldursins. Ég vissi því varla hvaðan á mig stóð veðrið þegar inn í salinn gengur ein af konunum sem sjá um þrif á húsnæðinu, en þau störf hafa legið niðri í rúman hálfan mánuð vegna verkfalla,“ segir Sigurbjörg Erla í samtali við Fréttablaðið en hún tilkynnti málið til Eflingar.
„Á meðan viðkvæmir hópar líða fyrir þjónustuskerðingu og Efling sýnir mikinn sveigjanleika varðandi undanþágur á verkföllum fyrir þá starfsemi sem sinna bráðnauðsynlegri þjónustu, var virkilega verið að að stunda verkfallsbrot til þess að þrífa aðstöðuna fyrir toppana í bæjarstjórn? Mér var hreinlega misboðið,“ segir hún enn fremur. Hún komst að því að konan væri félagsmaður Eflingar og ætti því með réttu að vera í verkfalli.