Björk Eiðsdóttir
bjork@frettabladid.is
Laugardagur 11. mars 2023
20.00 GMT

Undiraldan hafði vaxið jafnt og þétt, enda hafði atvinnuþátttaka giftra kvenna þrefaldast á árunum 1960 til 1980 en enn var litið á launaða vinnu þeirra sem aukastarf við hlið umönnunar barna og heimilis.

Kvennafrídagurinn árið 1975 hafði mikil áhrif á íslenskar konur þegar 90 prósent kvenna lögðu niður störf sín svo atvinnulífið lamaðist. Fimm árum síðar var Vigdís Finnbogadóttir, kjörin forseti, fyrst kvenna í heiminum. En jafnvel þó meirihluti kvenna tæki fullan þátt í atvinnulífinu miðaðist enn allt við að þær væru heimavinnandi.

Staðan í Reykjavík árið 1981

 • 8 prósent barna höfðu aðgang að heilsdagsvistun. Einstæðir foreldrar og námsmenn nutu forgangs, en dagheimilispláss
  dugðu ekki fyrir þau börn.
 • 30 prósent barna höfðu aðgang að dagheimilum hluta úr degi.
 • 2 prósent nemenda, 7–10 ára, höfðu aðgang að skóladagheimili utan skólatíma.
 • Skóladagur var stuttur og sundurslitinn, skólar tví- og þrísetnir og engar skólamáltíðir.
 • Kvennalistinn bauð í fyrsta sinn fram til alþingiskosninga árið 1983 en þá sátu aðeins þrjár konur á Alþingi og engin þeirra í
  stjórn. Frá upphafi höfðu aðeins 12 konur setið á þingi.
 • Í sveitastjórnum var svipað uppi á teningnum þó í Reykjavík hafi hlutfallið verið skárra en víða annars staðar. Konur voru
  lítt sýnilegar í stjórnum og ráðum, í umræðum fjölmiðla og stórri ákvarðanatöku.
Kvennalistakonur fyrir utan Hótel Vík: Kristín Ástgeirsdóttir, Guðrún Erla Geirsdóttir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Elísabet Guðbjörnsdóttir, Sigríður Dúna Kristmannsdóttir og Kristín Jónsdóttir.

Aðdragandinn

Árið 1982 bauð Kvennaframboð í Reykjavík og á Akureyri fram í sveitastjórnarkosningunum. Í framhaldi komu upp umræður um að bjóða fram til Alþingis vorið eftir og voru skiptar skoðanir um málið.

Þrisvar sinnum var skoðanakönnun lögð fyrir hópinn og þrisvar sinnum var meirihlutinn andvígur framboði til Alþingis. Að lokum var tekin ákvörðun á félagsfundi að Kvennaframboð myndi ekki standa að framboði til Alþingis en þær konur sem hlynntar voru framboði fengu þó stuðning til þess að halda þeirri vinnu áfram.

Efnt var til borgarafundar til að kanna undirtektir við framboð til Alþingis og kynna drög að stefnu og var niðurstaðan sú að boðið yrði fram í Alþingiskosningum undir nafninu Kvennalisti.

Stofnfundur var haldinn 13. mars 1983 á Hótel Esju og voru stofnfélagar 102.

Kvennalistinn byggði stefnu sína í landsmálum á sömu hugmyndafræði og hugmyndum og þeim sem lagðar voru til grundvallar í stefnuskrá Kvennaframboðs. Má þar meðal annars nefna kvennamál, valddreifingu, skóla- og menningarmál, umhverfismál, heilbrigðis- og félagsmál, fæðingarorlofsmál, efnahags- og atvinnumál og friðar- og utanríkismál.

Hótel Vík var aðsetur hugrakkra kvenna sem vildu ná fram breytingum.

Hótel Vík

Árið 1981 tók Kvennaframboð Hótel Vík eða Víkina á leigu og hafði Kvennalistinn síðar þar aðstöðu til ársins 1988.

Árið 1984 var ákveðið að breyta Víkinni í Kvennahús og höfðu þar aðsetur Vera, blað Kvennaframboðs og síðar Kvennalista, Friðarhreyfing íslenskra kvenna, Samtök kvenna á vinnumarkaði, Kvennaráðgjöf og Kvennahópur Samtakanna 78.

Af myndum og frásögnum að dæma var mikið líf og fjör í hverju rými og allt upp í rjáfur hússins sem staðsett er við Ingólfstorg. Þangað sóttu konur að loknum vinnudegi og um helgar og lögðu á ráðin um aðgerðir og næstu skref í kvennabaráttunni.

Eftirtektarverðar aðgerðir

Kvennalistakonur létu í sér heyra þegar það átti við og efndu til aðgerða sem eftir var tekið til að vekja athygli á málstað sínum, hvort sem það varðaði sýnileika kvenna, hátt vöruverð eða brenglaða útlitsumræðu.

Þögul mótmæli

Fyrir alþingiskosningar árið 1987 samþykkti útvarpsráð að fulltrúi Kvennalista fengi ekki að taka þátt í hringborðsumræðum í sjónvarpi, kvöldið fyrir kjördag. Eins hafði ráðið samþykkt að við framboðskynningu flokkanna fengi Kvennalisti aðeins 15 mínútur á meðan aðrir flokkar fengu 20 mínútur.

Þessum ákvörðunum mótmæltu Kvennalistakonur með því að fjölmenna við Sjónvarpshúsið sveipaðar þögn. Engin þeirra mælti orð frá vörum og voru margar með bundið fyrir munninn í anda ákvörðunar útvarpsráðs.

Ein eftirminnilegasta aðgerðin var þegar Kvennaframboðskonur mættu íklæddar síðkjólur með kórónur og borða eins og fegurðardrottningar til að mótmæla ummælum borgarstjóra.

Fegurðardrottningar

Ein eftirminnilegasta aðgerðin var framkvæmd af Kvennaframboðskonum í borgarstjórn.

Í júní 1985 við krýningu á fegurðardrottningu Íslands á Broadway sagði þáverandi borgarstjóri, Davíð Oddsson, eitthvað í þá veru, að ef þær stúlkur sem tækju þátt í fegurðarsamkeppni skipuðu efstu sæti Kvennaframboðs þá þýddi lítið fyrir karlana að bjóða sig fram.

Kvennaframboðskonur tóku þessum ummælum sem móðgun við bæði kvenkyns fulltrúa í borgarstjórn og stúlkuna sem krýnd var, og að á þeim mætti skilja að fegurð kvenna skipti meiru en vitsmunir þeirra.

Borgarfulltrúarnir Guðrún Jónsdóttir og Magdalena Schram mættu í borgarstjórn íklæddar síðkjólum með kórónur á höfði og borða þar sem þær voru merktar sem Ungfrú meðfærileg og Ungfrú spök.

Í framhaldi mættu borgarfulltrúarnir Guðrún Jónsdóttir og Magdalena Schram í borgarstjórn íklæddar síðkjólum með kórónur á höfði og borða þar sem þær voru merktar sem Ungfrú meðfærileg og Ungfrú spök.

Á pöllunum var svo hópur kvenna eins útbúnar og mátti sjá borða með merkingunum: Ungfrú brosmild, Ungfrú undirgefin, Ungfrú ljúf, Ungfrú samþykki og fleira.

Grjónagrautsmótmælin

Árið 1984 gaf þáverandi forsætisráðherra Steingrímur Hermannsson, þjóðinni það sparnaðarráð að hafa oftar grjónagraut í matinn enda bæði hollur og góður.

Þetta var á tímum óðaverðbólgu og þjóðarsáttar og brugðust Kvennalista- og Kvennaframboðskonur við með því að hittast fyrir utan Hótel Vík með potta, pönnur og kröfuspjöld. Gengið var að Alþingishúsinu með pottaglamri og slagorðahrópum og í framhaldi að versluninni Víði við Austurstræti þar sem hluti hópsins fór inn og keypti hráefni í ráðherragrautinn.

Á tímum óðaverðbólgu og þjóðarsáttar mótmæltu Kvennalista- og Kvennaframboðskonur tilmælum forsætisráðherra um að hafa oftar grjónagraut í matinn til að spara.

Guðrún Jónsdóttir borgarfulltrúi Kvennaframboðs fór fyrir hópnum og þegar kom að því að borga útskýrði hún kurteislega að hún væri ekki borgunarmanneskja fyrir meira en 2/3 af hráefninu því meðaltekjur kvenna væru aðeins 2/3 af launum karla.

Viðbrögðin voru misjöfn meðal viðskiptavina og afgreiðslufólks, flestir sýndu þessu skilning og tóku jafnvel undir kröfurnar með tilheyrandi hrópum og köllum. Verslunarstjórinn var ekki jafnhrifinn og lét kalla til lögreglu.

Viðskiptavinir skutu svo saman í einn grautarskammt og var gengið aftur að Alþingi þar sem afhenda átti Steingrími hráefnið, hann reyndist vant við látinn en Albert Guðmundsson, þáverandi fjármálaráðherra tók við skammtinum.

Kvennarútan lagði af stað frá Víkinni í byrjun júní 1983 fagurlega skreytt og þéttskipuð Kvennalistakonum á leið í hringferð um landið til að hvetja konur á landsbyggðinni til að stofna Kvennalista.

Kvennalistarútan

Kvennarútan lagði af stað frá Víkinni í byrjun júní 1983 fagurlega skreytt og þéttskipuð Kvennalistakonum á leið í hringferð um landið til að hvetja konur á landsbyggðinni til að stofna Kvennalista í sínu kjördæmi en listinn bauð þá fram í þremur kjördæmum.

Bílstjórinn var kona og ásamt Kvennalistakonum var í rútunni ýmis konar söluvarningur til að styrkja framboðið. Kalltæki var með í för og ómuðu baráttusöngvar af plötunni Áfram stelpur þegar ekið var inn í bæina. Sextíu staðir voru heimsóttir og 30 fundir haldnir á mánaðartíma.

Þær Kristín Jónsdóttir, Brynhildur G. Flóvenz og Sigrún Jónsdóttir komu að stofnun Kvennaframboðs og/eða Kvennalista. Fréttablaðið/Anton Brink

Ótrúlega spennandi tímar

Þær Kristín Jónsdóttir, Sigrún Jónsdóttir og Brynhildur G. Flóvenz komu að stofnun Kvennaframboðs og/eða Kvennalista og settust niður með blaðamanni til að rifja upp magnaða tíma en aðkoma þeirra var misjöfn.

Brynhildur segist alltaf hafa haft áhuga á mannréttindum.

„Þegar ég var í kringum tvítugt og frekar saklaus, man ég eftir að hafa hugsað að jafnrétti væri eiginlega náð með minni kynslóð. Svo fór ég að taka meira og meira eftir skekktri mynd og lesa kvennabókmenntir.

Ég fór því að kíkja á Rauðsokkufundi en var feimin við að trana mér fram og fór að sniglast í kringum Víkina þegar Kvennaframboðið fór fram í Reykjavík. Ég var búsett í Kópavogi og hefði óskað þess að slíkt framboð hefði verið í Kópavogi. Svo sá ég auglýst starf hjá Kvennaframboðinu um mitt ár 1983 sem ég sótti um og fékk.“

Sigrún: „Ég var 23 ára þegar Kvennalistinn byrjaði og var þá nemandi í stjórnmálafræði í HÍ.“

Hún var 15 ára á Lækjartorgi þegar Kvennafrídagurinn var. Hafði það mikil áhrif á hana að upplifa þann baráttuanda sem þar var í lofti. Ljóst var að aðgerða væri þörf.

„Mamma var einstæð móðir, verkakona og tók þátt í starfi Félags einstæðra foreldra. Þannig að ég þekkti kjör einstæðra mæðra og láglaunakvenna. Ég tók þátt í undirbúningsfundum og mætti svo á stofnfund Kvennalistans.

Það var mikill innblástur að hitta og kynnast öllum þessum öflugu konum sem þar voru samankomnar. Ég var svo sannfærð og er enn um að Kvennalistinn var það sem þurfti,“ segir hún.


„Mamma var einstæð móðir, verkakona og tók þátt í starfi Félags einstæðra foreldra. Þannig að ég þekkti kjör einstæðra mæðra og láglaunakvenna."

Sigrún


Mikið fagnað þegar fyrstu tölur bárust í alþingiskosningunum árið 1983.

Sigrún rifjar upp hvernig það hafi gengið að raða konum á þennan fyrsta framboðslista Kvennalistans þar sem hún sjálf tók sjötta sæti.

„Við þekktumst lítið sem ekkert innbyrðis svo það var ákveðið ævintýri. Kristín Halldórsdóttir tók fyrsta sætið en hún bjó í London á þessum tíma. Það var hringt í hana um miðja nótt og hún samþykkti.“

Kristín: „Það er svolítið merkilegt að þegar við fórum að leita til kvenna að vera á lista sögðu margar: „Ég skal vera með – en ekki í efstu sætunum.“ Þetta er liðin tíð en okkur tókst þó að fá frábærar konur en það var auðvitað engin með pólitíska reynslu.“

Eins og fyrr segir var stofnfundur Kvennalistans 13. mars 1983 og skila þurfti framboðslista eigi síðar en 23. apríl.

Sigrún: „Það var mjög mikið afrek að ná að stilla upp listum í Reykjavík, Reykjanesi og Norðurlandi Eystra á 6-7 vikum. Á þessum tíma var enginn gemsi og engar tölvur svo við vorum alltaf að hittast og svo var hringt látlaust. Það var í raun ótrúlegt að við skildum ná þessu.“

Sigrún varð síðar starfskona þingflokksins með aðsetur í Skólabrú.

Sigrún: „Það var eiginlega allt merkilegt við Kvennalistann svo það erfitt að slíta út atriði. Við lögðum á okkur mikla vinnu en það var alltaf svo mikil gleði að hún varð skemmtileg.“

Kristín segist alltaf hafa haft mikinn áhuga á jafnréttismálum.

„Ég starfaði heilmikið með Rauðsokkuhreyfingunni. Farið var að ræða að við konur myndum bjóða fram þar sem lítið hafði gerst í jafnréttismálum þau fjögur ár sem vinstri meirihlutinn hafði verið við völd. Við hringdum í vinkvennahópinn og boðuðum til fundar. Þannig rúllaði þetta af stað.“


„Ég starfaði heilmikið með Rauðsokkuhreyfingunni. Farið var að ræða að við konur myndum bjóða fram þar sem lítið hafði gerst í jafnréttismálum þau fjögur ár sem vinstri meirihlutinn hafði verið við völd."

Kristín


Kristín, Brynhildur og Sigrún rifjuðu upp magnaða tíma með blaðamanni. Fréttablaðið/Anton Brink

Þær eru allar sammála um að þetta hafi verið ótrúlega spennandi tímar og baráttuandinn meðal kvennanna gríðarlegur. Umræðurnar hafi verið einkar gefandi og miklar.

Kristín: „Það er mín æðsta háskólagráða, að hafa farið í gegnum alla þessa hugmyndafræðilegu vinnu þar sem nýjar hugmyndir voru reifaðar, öll mál skoðuð út frá sjónarhóli kvenna og barna og engin hugmynd gagnrýnd.“

Kvennalistakonur voru eins og rifjað hefur verið upp, aðgerða­sinnar og vöktu aðgerðir þeirra oftar en ekki mikla athygli. Ein hugmynd grasrótarinnar var að fara niður að Ægisíðu og heilgrilla karlrembusvín en hún fékk þó ekki hljómgrunn.

Kristín: „Það gerist líka þegar fólk er komið inn í svo hefðbundið umhverfi sem Alþingi er, að það skapast ákveðin fjarlægð. Ég man vel eftir því þegar við vorum fyrir utan Alþingi að mótmæla og þingkonurnar voru í glugganum inni á Alþingi. En ástæðan fyrir því að við fórum fram var til að komast inn í kerfið og breyta því, innan frá. Við settum spurningarmerki við allt og spurðum alltaf: „Hvernig kemur það við konur og börn?“

Kristín rifjar upp spurningu frá fjölmiðli á fyrsta blaðamannafundi Kvennaframboðsins á Víkinni.

„Hvað ætlið þið að gera í hafnarmálum?“ Við áttum ekki von á þessari spurningu.

Svarið kom strax: „Reisa girðingu í kringum höfnina svo börnin detti ekki í sjóinn.“

Rifjar hún upp og uppsker hlátur hinna.

„Það höfðu nú ekki allir húmor fyrir þessu.“

Brynhildur: „Það var svo gefandi að vera í Víkinni, svo mikil deigla og iðandi hugmyndalíf. Ég hafði verið í ýmis konar félagsstarfi þar sem tveir, þrír hafa sig mest í frammi en þarna var fyrirkomulagið þannig að orðið var látið ganga og allar tjáðu sig um hvert málefni.“


„Það var svo gefandi að vera í Víkinni, svo mikil deigla og iðandi hugmyndalíf. Ég hafði verið í ýmis konar félagsstarfi þar sem tveir, þrír hafa sig mest í frammi en þarna var fyrirkomulagið þannig að orðið var látið ganga og allar tjáðu sig um hvert málefni.“

Brynhildur


Brynhildur sem er lögfræðingur segir merkilegt að horfa til baka og skoða þau áhrif sem Kvennalistinn hafði þrátt fyrir að vera alltaf í stjórnarandstöðu.

„Það er merkilegt, eins og til að mynda á jafnréttislöggjöfina,“

Sigrún: „Við lögðum áherslu á að öll mál væru kvennamál og við tókum þátt í umræðum um öll mál hvort sem það voru sjávarútvegsmál, umhverfismál eða annað.“

Brynhildur: „Já og vinnumarkaðsmál. Kvennalistinn talaði fyrir skiptingu fæðingarorlofs í kringum 88-9. Þá þótti það algjört hneyksli að ætla að skylda karla í fæðingarorlof.“

Kristín: „Svo var fólk mishrifið af því þegar við töluðum fyrir því að fæðingarorlofsgreiðslur væru í hlutfalli við laun. Eitt stærsta mál Kvennalistans var að leiðrétta laun láglaunakvenna.

Í öllum stefnuskrám framboðanna var hamrað á því. Þar segir meðal annars „að óheimilt verði að greiða laun undir framfærslumörkum.“

Þessi krafa talar beint inn í kjarabaráttu dagsins í dag. Kvennalistinn lagði fram frumvarp um lögbindingu lágmarkslauna 1986. Slík lögbinding var ófrávíkjanlegt skilyrði Kvennalistans í stjórnarmyndunarviðræðunum 1987“


„Svo var fólk mishrifið af því þegar við töluðum fyrir því að fæðingarorlofsgreiðslur væru í hlutfalli við laun. Eitt stærsta mál Kvennalistans var að leiðrétta laun láglaunakvenna."

Kristín


Stefnumótunarfundur í Víkinni.

Sigrún: „Þingið sem slíkt vissi ekki hvernig ætti að bregðast við svona afli. Við vorum ekki með formann og kerfið ætlaði ekki að skilja það, né fjölmiðlar. Hvernig hreyfingin ætlaði að komast af með engan formann.“

Kristín: „Við vorum spurðar: „Gleymduð þið að skipa formann?“ segir hún og hlær.

Kristín bendir jafnframt á að áhrifin hafi verið víðtæk, aðrir flokkar hafi farið að raða sínum konum ofar.

„Konur höfðu verið skrautfjaðrir en voru færðar ofar á lista og við litum á það sem okkar sigur.“

Halda kvennaþing

Eins og fyrr segir fagna Kvennalistakonur nú 40 árum og efna þær til kvennaþings um næstu helgi.

Sigrún: „Við ætlum að halda opið kvennaþing 18. mars á Hilton hóteli þar sem stofnfundurinn var fyrir 40 árum síðan. Þar ætlum við ekki að vera í söguskýringum heldur í nútímanum og fara yfir stöðu kvenna í dag.

Það er búið að fjölga konum víða, í pólitík og áhrifastöðum en það er eins og karlaveldið passi enn upp á ákveðna þræði. Við viljum taka umræðuna og hlusta eftir sjónarmiðum og við sjáum til hvað gerist.“


„Það er búið að fjölga konum víða, í pólitík og áhrifastöðum en það er eins og karlaveldið passi enn upp á ákveðna þræði


Að lokum er ekki annað hægt þegar setið með slíkum frumkvöðlum í femínískri baráttu en að spyrja þær út í þeirra sjónarmið þegar kemur að nýjustu byltingunni, kenndri við MeToo.

Brynhildur: „Mér finnst hún stórkostleg! Stærsta bylting sem hefur orðið frá því Kvennalistinn kom til sögunnar.“

Sigrún: „Já, ég er sammála.“

Kristín: „Algjörlega magnað.“

Brynhildur: „Þetta var það skref sem var svo nauðsynlegt að taka.“

Sigrún: „Ég ber mikla virðingu fyrir þeim konum sem hafa stigið fram.“

Hér má finná hlekk á Kvennaþingið um næstu helgi á Facebook: Kvennaþing

Heimildir og ljósmyndir sem notaðar voru í þessa grein eru af vefsíðunni Kvennalistinn.is

Athugasemdir