Það er greinilegur kynjamunur í öllum fösum í neyslu textíls,“ segir Kristín Edda Óskarsdóttir, meistaranemi í félagslegri sálfræði og umhverfisfræði. Hún fjallaði um rannsókn sína á kauphegðun Íslendinga á umræðufundi um aðgerðir gegn textílsóun og ójöfnuði, sem haldinn var af Umhverfisstofnun í gær.
Rannsóknir Kristínar sýna að konur sjá í áttatíu prósentum tilfella um textílinnkaup á heimilum, að mestu eða öllu leyti. „Konur eru stórneytendur og stór neytendahópur þegar kemur að textíl,“ segir Kristín.
Hún segir konur ekki einungis sjá um kaup á fatnaði fyrir sig sjálfar, heldur kaupi þær fatnað á alla fjölskylduna ásamt öðrum textílvörum, svo sem handklæðum, rúmfötum og tuskum.
Kauphegðun karla og kvenna ólík
„Samkvæmt rannsókninni bera konur hitann og þungann af þessu verkefni inni á heimilinu,“ segir Kristín. Þá segir hún kauphegðun karla og kvenna í eðli sínu ólíka, samkvæmt rannsókn hennar voru karlar nægjusamari þegar kemur að fatakaupum og líklegri til þess að kaupa einungis það sem þá vantar. Konur voru líklegri til að kaupa textíl í fljótfærni og kaup þeirra stjórnuðust oftar af tilfinningum.
Kristín segir sjálfbærni og vinnuskilyrði við framleiðslu textíls ekki ofarlega í huga Íslendinga, en að konur hugsi þó meira um þá þætti en karlar. Talið er að átta til tíu prósent gróðurhúsalofttegunda eigi rætur sínar að rekja til textílframleiðslu og að henni fylgi bæði umhverfis- og félagsleg vandamál.

Þegar þátttakendur rannsóknar Kristínar voru spurðir spurninga varðandi losun kom einnig í ljós greinilegur kynjamunur. 80 prósent kvenna segjast losa sig við föt því þau passi þeim ekki lengur. Fjörutíu prósent kvenna sögðust losa sig við við textíl því þær væru komnar með leiða á honum og tuttugu prósent losuðu sig við föt því þær hefðu keypt þau í fljótfærni.
Líkt og að leigja vídeóspólu hér áður fyrr
Kristín segir mikilvægt að hægja á neyslunni þegar kemur að textíl, þar eigi konur stóran þátt. Á vefnum samangegnsoun.is segir að hver flík sé að meðaltali notuð 150 sinnum og að hver Íslendingur losi sig við um það bil 20 kíló af textíl á hverju ári.
Þar má einnig finna ráð við því hvernig megi draga úr neyslu textíls. Megináhersla er lögð á að kaupa minna, þá er mælt með að kaupa notað, skila textíl á réttan stað og nota hann lengur.
Kristín er ein þeirra sem mun opna fataleiguna Spjara í sumar eða með haustinu. Hún segist telja ólíklegt að í nútímasamfélagi hlýði fólk því að hætta að kaupa föt, því bæði föt og tíska séu stór hluti af lífi fólks og menningarsögu.
„Þetta er bara eins og að leigja vídeóspólu í gamla daga,“ segir Kristín. „Það að leigja föt getur uppfyllt þessa þörf okkar fyrir að ganga í einhverju nýju, en umhverfisáhrifin eru nánast engin,“ bætir hún við.