Framkvæmdastjórn SÁÁ skoðar nú möguleika á að byggja og reka búsetuúrræði fyrir konur.

„Staðan í dag er þannig að við erum að meta þörfina og kostnað og hvaða hópur þurfi á þessu að halda,“ segir Einar Hermannsson, formaður SÁÁ.

„Það er búið að teikna íbúðir í Efstaleiti 7, nýja hæð, þar sem göngudeild okkar er og yrði það samtengt. Konur geta þá fengið húsnæði og langtímameðferð samtímis,“ segir Einar.

Loka á Urðar­brunni, úrræði fyrir barnshafandi konur í fíknivanda, um mánaðamótin því engar fjárveitingar fást frá hinu opinbera. Þar hefur verið hægt að taka á móti þremur konum í einu og veita þeim stuðning og fræðslu til að eignast barn.

„Ef ekkert er gert er hætta á því að konurnar fari í sama far og börnin verði mögu­lega send í fóstur. Konurnar vilja ná bata, vera til staðar fyrir börnin sín og koma undir sig fótfestu í lífinu,“ segir Elísabet Ósk Vigfúsdóttir, ljósmóðir og forstöðukona Urðarbrunns.

Einar segir reiknað með að það kosti 300 milljónir króna að koma úrræðinu á fót. „Það sem vantar núna er samningur við ríkið og sveitarfélög. Að auki þarf að manna tvö til þrjú stöðugildi til að styðja við konurnar í þessu úrræði. Við erum á byrjunarstigi en ætlum að vinna þetta hratt,“ segir hann.

Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi, segir úrræðið hugsað fyrir konur sem séu mjög veikar af fíkn og geti ekki nýtt sér áfangaheimili. Konur með börn þurfi meiri stuðning og umönnun en sé í boði í meðferð.