„Næstum því allar myndirnar sem eru sýndar í ár eru af þessari kynslóð kvenleikstjóra. Það er eittvað að breytast í heiminum í dag. Það sem einkennir franska kvikmyndagerð í ár er rosalega mikill fjölbreytileiki. Við erum að taka inn myndir, ekki bara frá Frakklandi heldur frá öllum frönskumælandi heimshornum,“ segir Anna Margrét.
Hún nefnir sem dæmi mynd um Inúíta frá Kanada, auk myndarinnar Saint Omer eftir Alice Diop. „Þetta er mynd eftir svarta kvenleikstýru sem er með framlag til Óskarsverðlaunanna í ár. Ég held að fjölbreytileikinn sé í fyrirrúmi,“ segir upplýsingafulltrúinn.
Að sögn Önnu Margrétar hefur Franska sendiráðið hefur alltaf stutt við Reykjavik Feminist Film Festival og segir hún frönsku ríkisstjórnina sömuleiðis hafa mjög feminískar áherslur.
Hún segir aðstandendur hátíðarinnar þó ekki hafa meðvitað valið myndir eftir konur á hátíðina, heldur hafi hlutirnir einfaldlega raðast þannig. „Þessar kvikmyndir sem við erum að taka inn eru myndir sem voru að vinna til verðlauna á hátíðum eins og á Cannes í fyrra, þannig að þetta er tilviljun þannig lagað.“
Opnunarmynd hátíðarinnar er Coupez ! (Final cut) eftir Michel Hazanavicius. Henni má lýsa sem uppvakninga splatter mynd. Anna Margrét segir myndina bannaða innan sextán ára og hún sé ekki fyrir þá viðkvæmustu, en þó ættu flestir að geta notið hennar.
„Það eru engir passar, það er bara almennt miðaverð. Ég mæli með því að ná sér í miða fyrirfram, það eru ekki margar sýningar á hverri mynd og svo eru þrjár sérsýningar sem þarf að bóka miða á fyrirfram.“
Upplýsingar um dagskrá hátíðarinnar má nálgast á vef Bíó paradísar.