Í kringum sex­tíu til átta­tíu konur mættu til mót­mæla í borginni Herat í Af­g­anistan þar sem farið var fram á frelsi fyrir konur til að mæta til skóla og vinnu.

Einn mót­mælendanna, Mariam Ebram, segir í sam­tali við frétta­stofu Al Jazeera að konur í landinu væru langþreyttar á óskýrum svörum Talí­bana um rétt kvenna til að stunda vinnu.

Í ein­hverjar vikur hefur henni og fleiri konum verið sagt að mæta ekki til vinnu eða verið sendar heim þegar þær mættu á skrif­stofur sínar.

Mörgum þótti nóg komið þegar Sher Mohammad Abbas Stanikzai, einn leið­togi Talí­bana, sagði í sjón­varps­við­tali við BBC að það verði „mögu­lega ekki“ pláss fyrir konur í efstu lögum ríkis­stjórnarinnar. „Ríkis­stjórn án kvenna mun aldrei endast,“ segir Ebram.

„Við erum ekki hræddar, við erum sam­einaðar“

Talí­banar hafa haldið því fram að stjórn þeirra verði nú­tíma­legri en fyrir rúmum tuttugu árum þegar þeir voru við stjórn áður. Þeir hafa sagt að konur muni hafa meiri réttindi og geta stundað skóla og vinnu að ein­hverju marki en það virðist ekki vera raunin hingað til.

Konum hefur verið sagt að leið­togum innan hreyfingarinnar að halda sig heima þar sem her­menn þeirra séu ekki vanir því að koma fram við konur af virðingu.

Fréttablaðið/AFP

Ein­hverjar af mótmælendunum segjast vera að til­búnar til að klæðast búrkum og sam­þykkja stjórn Talí­bana ef þeir veita þeim þessi mannréttindi.

„Konurnar í þessu landi eru upp­lýstar og menntaðar. Við erum ekki hræddar, við erum sam­einaðar,“ sagði annar mót­mælandi að nafni Basira Taheri í sam­tali við frétta­stofu CBS.

„Við munum halda á­fram að bót­mæla,“ segir hún. „Við byrjuðum í Herat, fljót­lega mun þetta dreifast til annarra héraða.“

Fréttablaðið/AFP