Sam­kvæmt niðurstöðum rannsókna eins helsta hamingju­sér­fræðings í heimi, Paul Dolan, eru ein­hleypar og barn­lausar konur hamingju­samari en aðrir hópar kvenna. Sam­kvæmt því eru þær lík­legri til að lifa lengur en þær konur sem eru í sam­bandi og eiga börn.

Dolan, sem er prófessor í at­ferlis­miðaðri sál­fræði við LSE í London, sagði á Hay Festi­val í gær að nýjustu vís­bendingar bendi til þess að ekki sé sam­hengi á milli hefð­bundinna leiðar­vísa sem notaðir eru til að mæla vel­gengni og hamingju, sér­stak­lega leiðar­vísa á við hjóna­band og barna­upp­eldi.

„Gift fólk er hamingju­samara en aðrir hópar, en að­eins þegar maki þeirra er í her­berginu þegar þau eru spurð hversu hamingju­söm þau eru. Þegar makinn er ekki við­staddur: djöfull van­sæl,“ sagði Dolan.

Hann sagði að til væru gögn um fólk sem hefði verið fylgst með í langan tíma og sam­kvæmt þessu benti margt til þess að karl­menn ættu frekar að gifta sig og konur ættu að sleppa því. Hann sagði að helsti á­vinningur karl­manna af hjóna­bandi væri að þeir róuðust.

„Þið takið frekar á­hættu, þið þénið meira og lifið að­eins lengur. Hún, á hinn bóginn, þarf að þola það og deyr fyrr en ef hún hefði ekki gift sig. Hamingju­samasti hópur kvenna eru konur sem hafa aldrei gift sig eða eignast börn,“ sagði Dolan.

Dolan fer yfir þessar niður­stöður í nýjustu bók sinni, Happy Ever After. Þar kemur meðal annars fram að heilsa karl­manna batnar yfir­leitt eftir að þeir gifta sig, en heilsa kvenna helst svipuð. Það er vegna þess að karl­menn taka síðar á­hættu séu þeir giftir. Þó segir að giftar konur á miðjum aldri séu lík­legri til að glíma við and­leg vanda­mál en þær sem eru ekki giftar.

Greint er frá á Guar­dian.