Viðar Þorsteinsson hjá Eflingu stéttarfélagi segir um svör Icelandair, sem bárust Fréttablaðinu í gær vegna fréttar um að Icelandair hefði sagt trúnaðarmanni hlaðmanna á Reykjavíkurflugvelli upp störfum, að það komi honum á óvart að málið sé sagt í farvegi.

Öllum tilraunum Eflingar til að eiga samtöl um málið við fyrirtækið hafi verið hafnað.

Í yfirlýsingu Icelandair segir að félagið harmi að Efling hafi ákveðið að reka þetta viðkvæma mál í fjölmiðlum. Það sé staðreynd að Ice­landair sé ósammála túlkun Eflingar og aðila greini á um ákveðin efnisatriði málsins, svo sem hvort viðkomandi starfsmaður hafi verið trúnaðarmaður þegar til uppsagnar kom.

„Að öðru leyti getum við því miður ekki rætt einstök starfsmannamál opinberlega en þetta tiltekna mál er í farvegi,“ segir í svari félagsins við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Viðar segir að varðandi það hvort ágreiningur sé um hvort Ólöf Helga Adolfsdóttir, hlaðkona Icelandair, sem steig fram og sagði sögu sína í Fréttablaðinu í gær, hafi verið trúnaðarmaður þegar henni var sagt upp, hafi það komið mjög skýrt fram í birtu efni Eflingar vegna málsins, að félaginu hafi verið fullkunnugt um að Ólöf væri trúnaðarmaður við uppsögn, fyrirliggjandi gögn staðfesti það.

Mörg gögn í pósthólfi Ólafar staðfesti slíkt en fyrirtækið lokaði pósthólfinu um leið og Ólöfu var sagt upp störfum. „Við skorum á Icelandair að afhenda Ólöfu þessa pósta,“ segir hann.

Viðar segir mjög mikilvægt fyrir íslenskan almenning að vera upplýstan um hennar mál, því langstærstur meirihluti Íslendinga sé í stéttarfélögum og njóti þeirrar þjónustu sem þau bjóði.

„Ég held að flestir Íslendingar þekki mikilvægi trúnaðarmanna og einkum vegna beins stuðnings Samtaka atvinnulífsins við þessa meðferð á trúnaðarmanni hvet ég almenning til að kynna sér málið.“

Gyða Margrét Pétursdóttir, prófessor í kynjafræði við Háskóla Íslands, segir mál Ólafar þrástef um kynjaðar hugmyndir.
Fréttablaðið/Stefán

Gyða Margrét Pétursdóttir, prófessor í kynjafræði við Háskóla Íslands, segir að svo virðist sem mál Ólafar sé eitt af þrástefjunum um kynjaðar hugmyndir. Ólöf Helga var eina konan í hópi fastráðinna hlaðmanna á Reykjavíkurflugvelli þegar henni var sagt upp.

Hún hafi verið trúnaðarmaður starfsmanna og stóð í réttindabaráttu þegar henni var sagt upp. Þá veki mál hennar upp spurningar um viðhorf og orðræðu, því í samtali Fréttablaðsins við Ólöfu kom fram að yfirmönnum hefði þótt hún „hvöss í tali og erfið“.

Gyða Margrét segir að þekkt sé orðræðan um „freku konuna versus ákveðna karlinn“. Hvort sem varði framkomu, talsmáta eða hegðun séu gefin ólík merki eftir því hvort karl eða kona sé í aðalhlutverki. Hún segir að mál Ólafar virðist einnig tengjast hugmyndum um hvernig konum sé ætlað að birta kvenleika sinn.

Hugmyndinni um að þær séu vingjarnlegar, séu í raun ekki að rugga neinum bátum.

„Punkturinn er sá að í raun virðast konur hafa minna rými til að láta óánægju í ljós en karlar. Túlkun orða þeirra verður með ólíkum hætti,“ segir Gyða Margrét.

Finna megi samsvörun með máli Ólafar og heilu hillumetrunum af rannsóknum í kynjafræði. Sjálf er Gyða höfundur hugtaks sem kallast „ára jafnréttis“.

Það stendur fyrir að við teljum að kynjajafnrétti sé náð þótt raunin sé önnur. Það sem stríði gegn þeirri hugmynd sé afgreitt sem vandamál einstaklinga.

„Ég verð að viðurkenna að það kom mér á óvart að lesa um þetta mál. Það að hún fái að heyra að hún sé hvöss í tali og erfið. Ég hefði talið að við værum komin lengra en hefði samt átt að vita betur. Rannsóknir sýna að við teljum stundum að við séum komin lengra en raun ber vitni.“

Halldór Benjamín Þorbergsson, hjá Samtökum atvinnulífsins, svaraði ekki skilaboðum blaðsins vegna meints þáttar hans og samtakanna í að styðja uppsögn Ólafar eins og komið hefur fram hjá Eflingu.