Ný­skipaður mennta­mála­ráð­herra Talí­bana, Abdul Baqi Haqqani, hefur lýst því yfir að konur í Afgan­istan fái að stunda há­skóla­nám svo lengi sem skóla­starfið sé kynja­skipt og konur fylgi á­kveðnum reglum um klæða­burð.

Ný ríkis­stjórn Talí­bana var kynnt í seinustu viku en sam­kvæmt Haqqani er mark­mið stjórnarinnar að byggja landið upp á því sem þegar er til staðar, frekar en að hverfa aftur til forns fars. Seinast þegar þeir voru við stjórn var konum að mestu leiti bannaður að­gangur að vinnu og námi.

Haqqani segir að konur muni fá kennslu hvar sem mögu­leikinn er fyrir hendi, þar sem kennslu­stundir eru kynja­skiptar og konurnar geta fengið kennslu frá kven­kyns kennurum. „Guði sé lof að við séum með svona marga kven­kyns­kennara. Við munum ekki lenda í neinum vand­ræðum með þetta,“ segir hann.

Mótmæli afganskra kvenna gegn Talíbönum fyrir rúmri viku.
Fréttablaðið/EPA

Konur sem stunda nám eða vinna undir nú­verandi ríkis­stjórn eiga að fylgja stífum reglum um klæða­burð. Haqqani segir að allir kven­kyns nem­endur muni þurfa að klæðast hi­jab-slæðum.

Þar sem ekki stendur til boða að hafa kven­kyns kennara verður mögu­legt að hafa karl­kyns kennara en þá þurfi að fylgja á­kveðnum reglum. Ef karl­kyns og kven­kyns nem­endur deila stofu er hægt að að­skilja með tjöldum og einnig stendur til boða að nota streymi og staf­rænar lausnir.

Haqqani segir sömu­leiðis að nám­skrá skólanna verði endur­skoðaður á komandi mánuðum.