Samkvæmt nýrri alþjóðlegri skýrslu er kynjahalli eftirlauna hér á landi 13,2 prósent. Það er, hversu mikið meira karlmenn fá greitt í eftirlaun en konur, eftir 65 ára aldur.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu fjármálafyrirtækjanna Mercer, CFA Institute og Monash-háskólans í Ástralíu og er að stórum hluta byggt á tölum frá OECD.

Þó að munurinn sé í tveggja stafa tölu kemur Ísland nokkuð vel út. Meðaltal OECD er 25,6 prósent. Mestur er munurinn í Japan, 47,4 prósent, enda Japan mikill eftirbátur annarra vestrænna ríkja er kemur að jafnrétti kynja.

Minnstur var munurinn í Eistlandi, aðeins 3,3 prósent.

Þórey Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, segir ýmsar ástæður fyrir kynjahallanum.

„Konur eru að jafnaði meira í hlutastörfum og koma meira að því að sinna ólaunuðum störfum, eins og að sinna fjölskyldu og börnum. Ef konur lengja fæðingarorlof þá er ekki greitt í lífeyrissjóð. Þá verja konur aðeins styttri tíma á vinnumarkaði og lifa að jafnaði lengur en karlar,“ segir hún.

Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdarstjóri Landssamtaka lífeyrissjóða
frettablaðið/daníel

Algengt er að hjón hætti á sama tíma að vinna þó að konan sé yngri.

„Þetta er pólitískt mál sem er mjög þarft að ræða og rýna. Við greiðum ákveðna prósentu launa í lífeyrissjóð og þeir sem eru á lægri launum leggja þar með minna fyrir. Almannatryggingakerfið er mjög tekjutengt og jafnar þar með stöðuna gagnvart þeim sem eiga lítil lífeyrisréttindi.“

Þegar allt er tínt til fær íslenska eftirlaunakerfið hæstu einkunn allra OECD-ríkja í skýrslunni, með 84,2 stig af 100 mögulegum. Er því lýst sem „fyrsta flokks og burðugu eftirlaunakerfi sem veitir góð fríðindi, er sjálfbært og einkennist af heilindum“ ásamt því danska og hollenska.

Eru það einu kerfin sem fá A í einkunn. Meðal þess sem stuðlar að hárri einkunn Íslands er samtryggingin, há upphæð lífeyris Tryggingastofnunar og stjórnun lífeyrissjóðanna.

Þórey segir mikilvægt að fólk sé meðvitað um að hægt sé að jafna lífeyrisréttindi hjóna og sambúðarfólks með samningum.

„Réttur til lífeyris getur verið mjög misjafn milli hjóna og sambúðarfólks en hér áður fyrr var mjög algengt að karlmaðurinn væri úti að vinna á meðan konan sinnti heimili og börnum. Lífeyrissjóðirnir veita ráðgjöf varðandi slíka samninga,“ segir hún.