Íranskar konur geta nú sótt fót­bolta­leiki í heima­landi sínu án þess að eiga yfir höfði sér fangelsis­vist, í fyrsta skipti í fjóra ára­tugi. Konur flykkjast nú í miða­sölur til að geta verið við­staddar við leik íranska landliðsins gegn Kambódíu í undan­keppni Heims­meistara­mótsins í fót­bolta á fimmtu­daginn.

Ein af þeim 3500 konum sem hafa þegar tryggt sér miða á leikinn á fimmtu­daginn er Raha Poor­bak­hsh, í­þrótta­blaða­maður. „Ég trúi því varla að þetta sé að fara gerast, eftir öll árin sem ég hef unnið í þessum bransa og horft á leikina í sjón­varpinu fæ ég nú að upp­lifa þetta allt í eigin per­sónu,“ sagði Raha spennt í við­tali við AFP.

Víða mátti sjá samtöðu í fótboltaheiminum með írönskum fótboltaaðdáendum.
Fréttablaðið/Getty

Hlífa konum með banninu

Sam­kvæmt klerka­stjórnar Írans hafa konur ekki fengið leyfi til að fara á völlinn þar sem það þurfi að hlífa þeim fyrir karl­mann­legu and­rúms­lofti og hálf nöktum karl­mönnum sem sækja leikina. Þrátt fyrir að banninu sé fram­fylgt af hörku eru engin lög í laga­­bók­staf Írans sem banna við­veru kvenna á í­þrótta­við­burðum.

Banninu var af­létt í síðasta mánuði eftir að Al­­þjóða knatt­­spyrnu­­sam­bandið, FIFA, hótaði brott­vísun íranska lands­liðsins úr heims­meistara­mótinu vegna um­deildrar stefnu yfir­valda. Lög FIFA kveða skýrt á um að ó­lög­legt sé að mis­muna kynjunum og varaði for­seti FIFA, Gianni Infantino, Írönsk yfir­völd við því að við­halda banninu.

Kveikti í sér af ótta við fangelsisvist

Til­skipun FIFA kom einna helst í kjöl­far and­láts fót­boltaunnandans Sahar Khodoa­yari, sem einnig var þekkt sem bláa stúlkan. Sahar kveikti í sér eftir að hafa verið hand­tekin fyrir að smygla sér inn á stór­leik í meistara­deild Asíu.

Hún hafði dul­búið sig sem karl­mann til að geta fylgst með leiknum, sem er al­gengt meðal kvenna í landinu, en var leidd út af leik­vellinum í járnum af sið­ferðis­lög­reglunni. Sahar var síðan færð í hið al­ræmda Shahre Rey fangelsi og átti hún yfir höfði sér minnst sex mánaða fangelsis­dóm. Brá hún þá til þess ör­þrifa­ráðs að kveikja í sér fyrir framan dóms­húsið af ótta við fangelsis­vistina.

Andlát Sahar snerti fólk um allan heim.
Fréttablaðið/Getty