Það er mikið öryggisleysi fólgið í því að ákvörðunin er ekki rökstudd og ekki farið eftir tilmælum skimunaráðs.“, segir Lára Guðrún Jóhönnudóttir um breyttan skimunaraldur. Lára greindist með brjóstakrabbamein fyrir fáeinum árum, 32 ára gömul var og var ein af þeim sem fann ekki fyrir neinum einkennum. „Ég hafði bara tilfinningu fyrir því að ekki væri allt í lagi og fór til kvensjúkdómalæknis og fékk tilvísum í skimun“, segir Lára en móðir hennar lést rétt eftir fertugt úr brjóstakrabbameini, hvorug var þó með stökkbreytingu í BRCA erfðavísi.

Aldursmörk kvenna sem boðnar verða skimun fyrir krabbameinum í brjóstum hækkaði um áramótin en nú fá konur 50 ára fyrst boð um að koma í skimun í stað fertugs áður. Frá 2015-2019 greindust árlega að meðaltali 31 brjóstakrabbamein hjá konum á aldrinum 40-49 ára. Um 50 konur deyja vegna brjóstakrabbameins á hverju ári á Íslandi.

„Verður hlustað konur“?

Yfir 70 konur mynda Facebook-hópinn Brjóstakrabbamein – Konur 45 ára og yngri og deila þar reynslu. „Verður hlustað á áhyggjur kvenna?“, spyr Lára en reynsla margra kvenna sé sú að það sé undir hælinn er lagt hvort læknir taki áhyggjur kvenna af eigin heilsu alvarlega. Þannig geti konur yngri en fimmtíu ára ekki treyst því að fá tilvísun í skimun.

„Verða einhver sérstök tilmæli til lækna með þessu? Fáum við einhver staðar eitthvað öryggi? Kemur eitthvað í staðinn?“ Spyr Lára.

„Manni líður eins og þarna sé ákveðinn fórnarkostnaður til að spara í þjónustu sem á endanum verður dýrara fyrir kerfið“. Það tók Láru um tvö ár að koma undir sig fótunum á ný eftir að hafa klárað endurhæfingu.

Ekki farið að ráðum skimunaráðs

Krabbameinsfélag Íslands hefur vakið áthygli á því að með nýju fyrirkomulagi sé vikið frá evrópskum leiðbeiningum.

„Landlæknir hafði lagt til að farið yrði eftir evrópskum leiðbeiningum við skipulag skimana fyrir krabbameinum en þar er mælt með skimun 45-49 ára kvenna. Fagráð um brjóstakrabbamein mælti einnig með því að hefja skimun við 45 ára aldur. Með nýju fyrirkomulagi víkja landlæknir og skimunarráð frá evrópsku leiðbeiningunum og áliti fagráðs um brjóstakrabbamein án þess að það sé rökstutt sérstaklega“, kom fram í nýlegri tilkynningu félagsins.