Mikið öngþveiti myndaðist á alþjóðaflugvellinum í Kabúl er þúsundir Afgana reyndu að komast um borð í síðustu flugvélarnar á leið úr landi áður en borgin féll fyrir talíbönum.

„Það er algjör örtröð og öngþveiti á alþjóðaflugvellinum og fólk er bara að reyna að komast í burtu,“ segir öryggis- og varnarmálafræðingurinn Brynja Huld Óskarsdóttir, sem starfaði í Kabúl á vegum Atlantshafsbandalagsins frá 2018-2019.

Myndbönd, sem dreift hefur verið á samfélagsmiðlum, sýna fólk klifra utan á landgöngubrú og hlaupa á eftir bandarískri herflugvél sem er við það að taka á loft í örvæntingarfullri tilraun til að komast um borð.

Annað myndband virðist sýna þrjá einstaklinga hrapa til jarðar neðan úr herflugvél en talið er að þeir hafi reynt að halda sér í botn flugvélarinnar með fyrrnefndum afleiðingum.

Brynja er í stöðugu sambandi við fyrrum kollega sína og vini í Afganistan, sem eru um þessar mundir að leita allra leiða til að komast úr landi. Hún segist sjálf vera að hjálpa þremur afgönskum konum sem unnu með henni í Kabúl að komast í flug og ætlar að beita sér fyrir því að hjálpa þeim að sækja um hæli á Íslandi.

„Ég held að við upplifum öll svolítið að okkur rennur blóðið til skyldunnar. Það eru bara allir að reyna að gera eitthvað til að hjálpa. Maður er að fá skilaboð frá ótrúlegasta fólki, frá kaffisalanum eða einhverjum sem vann í búð sem maður hafði farið í og hefur einhvern veginn tengst manni á Messenger. Fólk sem er að reyna að komast til Tyrklands eða til Pakistan, það eru allir bara að reyna að finna einhverja leið út,“ segir Brynja.

Að sögn Brynju hefur hún mestar áhyggjur af stöðu kvenna í kjölfar yfirtöku talíbana. Réttindi kvenna í Afganistan voru mjög takmörkuð þegar þeir réðu síðast ríkjum í landinu frá 1996-2001. Hún segist vona að Ísland sýni ábyrgð í verki enda sé tekið skýrt fram í íslenskri utanríkisstefnu að ályktun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1.325 um konur, frið og öryggi sé hornsteinn í stefnunni.

„Við Vesturlönd, NATO og fleiri, erum búin að vera að aðstoða við að koma sjónarmiðum kvenna á framfæri og halda uppi því sem mætti lýsa sem vestrænum hugmyndum um kvenréttindi. Svo núna vakna þær við þann raunveruleika að þær eru undir stjórn talíbana og búnar að berjast fyrir kvenréttindum í tuttugu ár. Þær eru náttúrlega bara í gífurlegri hættu og eru mjög augljóst skotmark fyrir talíbana sem vilja alls ekki að konur séu í leiðtogastöðum eða opinberum stöðum,“ segir Brynja.

Mynd/Twitter

Þá segir hún mynd sem birt var af TOLOnews, helstu sjónvarpsstöð Afganistan, sem sýnir eigendur snyrtistofu í Kabúl í óða önn við að mála yfir auglýsingamyndir af konum, vera mjög lýsandi fyrir ástandið þar sem í raun sé verið að „afmá konur úr almenna rýminu“.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fundaði í gær. Brynja telur ekki að vestræn ríki aðhafist mikið.

„Það er ótrúlega lítið, held ég, eins og þetta horfir, sem hægt er að gera nú þegar vestræn öfl eru farin. Bandaríkjaher fór og þar með þurftu allir aðrir að fara og talíbanar eru búnir að taka yfir borgina. Ég sé ekki hvernig til dæmis Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, sem er skipað Bandaríkjunum, Bretlandi, Kína, Frakklandi og Rússlandi, ættu að ákveða að fara aftur inn. Það er enginn að fara aftur inn núna til að taka borgina með valdi, það myndi bara enda með blóðbaði.“