Fyrir helgi var tilkynnt að íslenski sprota- og vaxtasjóður­inn Crowberry Capital hefði fjármagnað nýjan vísisjóð, þann stærsta í Íslandssögunni, Crowberry II, sem er um 12 milljarðar króna eða 90 milljónir dollara. Þær Helga Valfells, Hekla Arnardóttir og Jenný Ruth Hrafnsdóttir hafa fjárfest í 15 tæknifyrirtækjum í gegnum fyrri sjóð Crowberry og þekkja fjárfestingaumhverfið vel.

Fjölmiðlar úti í heimi hafa sýnt sjóðnum áhuga og fjallað um hann um helgina enda leiddi Evrópski fjárfestingarsjóðurinn (EIF) fjármögnun sjóðsins. EIF er í eigu nokkurra evrópskra banka og er stærsti fagfjárfestir vísisjóða í Evrópu. Þessi erlenda fjárfesting mun hafa mikil áhrif á uppbyggingu tæknifyrirtækja og sköpun þekkingarstarfa á Íslandi til næstu 10 ára.

Athygli vekur að alls eru 33 prósent fyrirtækja sem Crowberry fjárfesti í leidd af konum en samkvæmt rannsókn Harvard-háskólans fara aðeins 2,3 prósent af fjármagni til fyrirtækja sem konur leiða.

„Við erum með 33 prósent fyrirtækja leidd af konum hjá okkur en svo erum við líka með blönduð teymi. Það er svolítið merkilegt að kvennateymin eru fljótari að blandast, byrja að fá fjölbreyttara fólk til sín á meðan karlateymin eru nánast bara í körlunum,“ segir Hekla.

Hún segir að sjóðurinn leiti ekkert endilega bara eftir konum heldur er horft í kristalskúluna og hvort hugmyndin sé spennandi. Það skipti engu máli hvort það sé karl eða kona á bak við hugmyndina.

„Langflest teymi sem við hittum eru karlar. Þeir eru búnir að vera lengur í þessu og langflestir fjárfestar eru karlmenn. Ef við sleppum þeim missum við bara af. Við viljum byggja upp eina deild, ekki karla- og kvennadeild,“ segir Hekla.

Hún segir að þær skrái niður hvað þær hitti margar konur og marga karla. „Stundum er sagt að það sé vandamál að það séu fáar konur að leita eftir fjármagni en það er ekki þannig. Það geta allir fjárfest meira í kvennateymum. Þær eru að koma til okkar og eru í þessu nýsköpunarumhverfi en eiga erfiðara með að fá fjármagn.“

Hekla bendir enn fremur á að rannsókn Harvard hafi leitt í ljós að þegar kvennateymi tali við fjárfesta upplifi þær meiri fordóma. „Þær fá gjarnan spurningar sem gera það að verkum að þær fara í vörn á meðan strákar fá uppbyggilegri spurningar.

Það er eitthvað sem allir þurfa að passa, bæði konur og karlar sem eru að meta svona tækifæri. Að taka sjálfan sig í gegn og spyrja hvort það séu einhverjir fordómar og bera saman á sanngjarnan hátt.“