Aðgerðarhópurinn „Aðför að heilsu kvenna“ segir að þær breytingar sem voru gerðar á skipulagi leghálssýna hafi valdið þúsundum kvenna miklum óþæginum og sumum óbætanlegum skaða.

Hópurinn fagnar þeirri ákvörðun að frá og með næstu áramótum fari rannsóknarhluti legháls skimanna aftur fram á Íslandi en segja að upplýsingar um ferlið hafi verið að skornum skammti og ýmsar spurningar vaknað.

Þær Erna Bjarnadóttir, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Lisa Ann Hartranft, Rut Ríkey Tryggvadóttir og Bylgja Guðjónsdóttir Thorlacius, sem fara fyrir hópnum, krefjast þess að notendur þjónustunnar séu hafðir með í ráðum og að þeir séu á öllum stigum upplýstir um stöðu mála.

Stefna á að hefja rannsóknina næstkomandi áramót

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins greindi frá því í byrjun júlí að rannsóknir á leghálssýnum yrðu fluttar til Landspítalans eftir að hafa verið send út á rannsóknarstofu í Danmörku í um hálft ár.

Áður en hægt er að flytja rannsóknina verður Landspítalinn að uppfylla ákveðnar forssendur. Embætti landlæknis metur forsendur flutnings og skilyrði en meðal annars þarf skimunarskrá að vera tilbúin til notkunar. Óskar Reykdalsson, forstjóri HH, telur líklegt að yfirfærslan gæti orðið um áramótin næstkomandi.

„Undirbúningur að flutningi hefst nú þegar en krefst tíma því nauðsynlegt er að tryggja gæði og öryggi rannsókna í hvívetna. Stefnt er að því að yfirfærsla geti orðið um áramótin næstkomandi, að því gefnu að unnt reynist að uppfylla allar kröfur fyrir þann tíma,“ sagði í tilkynningu frá Heilsugæslunni.

Aðgerðarhópurinn óskar eftir svörum við eftirfarandi spurningum:

  • Hefur LSH verið tryggt fjármagn til að geta sinnt þessu hlutverki með sóma?
  • Er formlegur undirbúningur verkefnisins hafinn hjá LSH?
  • Hvaða verkþættir verða fluttir til LSH?
  • Hefur verið leitað til Krabbameinsfélagsins við að virkja skimanaskrá þess og uppfæra hana til samræmis við nýtt fyrirkomulag.
  • Hvað má gera ráð fyrir að þessi uppfærsla á skimmanaskránni taki langan tíma?
  • Hefur farið fram þarfagreining á verkefninu?
  • Hver er áætlaður biðtími eftir niðurstöðum rannsókna fram til áramóta?