Konur sem starfa á opinberum vettvangi eru í mestri hættu á að verða fyrir kynferðislegri áreitni eða ofbeldi. Vaktavinna og óreglulegur vinnutími er stór áhættuþáttur.

Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem unnin er upp úr gögnum úr verkefninu Áfallasaga kvenna og var birt í heilbrigðismálatímaritinu Lancet í gær. Meginmarkmið hennar var að skoða kynferðislega áreitni og ofbeldi á vinnustöðum íslenskra kvenna og áhættuþætti.

„Konur sem vinna vaktavinnu eða eru með óreglulegan vinnutíma eru líklegri til að verða fyrir kynferðislegri áreitni og ofbeldi á vinnustað en konur eingöngu í dagvinnu. Konur á slíkum vinnustöðum eru líklegri til að vera einar með mögulegum geranda. Það er mikilvægt að huga að þessu þegar við skoðum hvernig hægt er að bæta öryggi kvenna á vinnustöðum,“ segir Edda Björk Þórðardóttir, lektor í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands og einn höfunda rannsóknarinnar.

Endurspeglar samfélagið

Svarendur í rannsókninni voru tæplega 16 þúsund konur úr öllum atvinnugreinum. Hugað var vel að aldursdreifingu, búsetu, tekjudreifingu og fleiri þáttum til að endurspegla samfélagið sem best.

„Þær sem svöruðu endurspegla kvenþjóðina vel,“ segir Edda. Um þriðjungur kvennanna sagðist hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni eða ofbeldi í vinnu og 8 prósent á núverandi vinnustað.

Hæst er hlutfallið hjá þeim sem starfa á opinberum vettvangi, 15,7 prósent. Þetta eru konur sem starfa til dæmis við tónlist, í sviðslistum, blaðamennsku, íþróttum og stjórnmálum. Í ferðamennsku er hlutfallið 15 prósent, 13,6 prósent í löggæslu og réttarkerfinu, 13,1 prósent í framleiðslu og viðgerðariðnaði og 12 prósent í heilbrigðisgreinum.

Lægst mældist hlutfallið í almennum skrifstofustörfum, 5,8 prósent. Þar á eftir 6,4 prósent í veitinga- og matreiðslugreinum og 6,8 í menntun.

„Gerendur geta verið samstarfsfólk eða yfirmenn en einnig utanaðkomandi aðilar. Til dæmis viðskiptavinur, skjólstæðingur eða sjúklingur,“ segir Edda. En þar sem áreitnin og ofbeldið er mest eru konur líklegri til að vera í miklum samskiptum við þriðja aðila.

Yngri konur í meiri hættu

Samkvæmt rannsókninni eru yngri konur í meiri hættu en eldri, hinsegin konur í meiri hættu en gagnkynhneigðar og háskólmenntaðar í meiri hættu en konur með minni menntun.

Rannsóknin er fyrsta lýðgrundaða rannsóknin af þessari stærðargráðu þar sem kynferðisleg áreitni og ofbeldi er skoðað eftir atvinnugreinum. Lítið er um eldri rannsóknir en hlutfall hefur mælst á bilinu 11 til 70 prósent. Fyrri rannsóknir hafa verið smærri í sniðum og oft aðeins bundnar við eina atvinnugrein. Þessi rannsókn brýtur því blað.

„Það er sláandi hvað kynferðisleg áreitni og ofbeldi er algengt á vinnustöðum hér á landi í ljósi þess að Ísland er í efsta sæti heimslista um kynjajafnrétti,“ segir Edda.