Næstu helgi fer fram ársþing Knattspyrnusambands Íslands (KSÍ). Á þingi verður kosið til nýrrar stjórnar, tillögu til fjárhagsáætlunar og fleira. Á þinginu eru skráðir um 132 aðalfulltrúar en af þeim eru aðeins sjö konur skráðar sem aðalfulltrúar. Þær eru því aðeins 5,3 prósent fulltrúa. Þá eru níu konur skráðar sem varafulltrúar á þinginu, sem er um tíu prósent af öllum varafulltrúum. En þeir eru samtals 88.

Engir kynjakvótar hjá knattspyrnuhreyfingunni

Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri KSÍ segir að á Íslandi hafi ekki verið settir kynjakvótar í knattspyrnuhreyfingunni. Hún muni þó eftir dæmi um að slíkt hafi verið gert á öðrum Norðurlöndum. Hjá UEFA og FIFA séu sérstök sæti fyrir konur í stjórn, en ekki kynjakvótar.

„Það eru engar reglur um kynjakvóta þegar kemur að þingfulltrúum og þó ég sé ekki með tölfræðina fyrir síðustu ár fyrir framan mig þá held ég að þetta sé ekkert ósvipuð staða og síðustu ár,“ segir Klara.

Spurð hvort það myndi virka að setja kynjakvóta á fulltrúa frá félögunum segir Klara að það fari allt eftir því hvaða markmiði sé verið að reyna að ná. Hún bendir á að á þinginu eru í mörgum tilfellum forsvarsmenn kvennaknattspyrnu félaganna karlmenn, og að sama skapi, séu einhverjar konur skráðar, sem ekki eru það til að tala eingöngu máli kvennaknattspyrnu, heldur félaganna sem þær eru hluti af.

„Tökum sem dæmi Stjörnuna í Garðabæ, sem er eitt sterkasta liðið í kvennaboltanum. Aðili sem er í forsvari fyrir kvennaboltann þar er karlmaður. Það eru tvær konur frá Fylki og önnur er formaður félagsins og kemur því ekki sem fulltrúi kvennaknattspyrnu. Það er ekkert eitt svar við þessari umræðu, en eitt er sannarlega að það eru fáar konur á ársþingi KSÍ. Það er tölfræðileg staðreynd,“ segir Klara, sem segir umræðuna flókna.

„Þetta er snúin umræða en kjarni málsins er sá að það eru fáar konur skráða sem fulltrúar. Ég veit ekki hvort að það sé rétt leið að skikka félögin að senda konur, en það eru þarna karlmenn sem eru sérstaklega virkir í kvennastarfi síns félag,“ segir Klara.

En það kannski þarf fleiri konur til að ná fram fjölbreytileika og sjónarmiðum fleiri en karlmanna á þinginu?

„Þetta er mjög einsleitur hópur. Við erum ekki að sjá mikinn fjölbreytileika,“ segir Klara að lokum.

Of lágt hlutfall

Guðni Bergsson, núverandi formaður KSÍ, segir í samtali við Fréttablaðið að engar reglur séu um kynjahlutföll tilnefningar frá félögum á þingið. Hann segir að KSÍ hvetji þó félögin til að hafa hlutföllin í huga við tilnefningar.

 „En augljóslega eru hlutföllin ekki eins og við viljum hafa þau. Það verður að viðurkennast og þetta er eitthvað sem að við verðum að vinna í og tækla sem hreyfing. Við viljum auðvitað hafa meira jafnvægi í þessu. Það gefur augaleið. Þetta er allt of lágt hlutfall,“ segir Guðni.

Hann segir að það sé jafnréttisstefna hjá samtökunum og að árlega séu veitt jafnréttisverðlaun.

„Við erum að leynt og ljóst að reyna að gæta að jafnrétti kynjanna og reyna að fá fleiri stelpur til að taka þátt og fleiri konur í dómarastörf og annað. Við erum með og höfum verið með það að leiðarljósi. En það er ljóst miðað við þessar tölur að betur má ef duga skal,“ segir Guðni.

Spurður hvort jafnréttismálin séu eitthvað sem hann sjái fyrir sér að einbeita sér að haldi hann áfram sem formaður segir Guðni enga spurningu um það.

„Þetta er eitthvað sem við þurfum að vinna markvisst í og hreyfingin hefur verið meðvituð um þetta í mörg ár en við þurfum að gera eitthvað markvisst í þessu því það er of mikill kynjahalli þarna og munur á þátttöku karla og kvenna. Eins og yfirleitt í þessum málum þá þarf sameinað átak okkar karlanna og kvenna að leiðrétta þennan kúrs,“ segir Guðni að lokum.

Hægt er að sjá lista yfir fulltrúa, dagskrá þingsins og fleira hér á heimasíðu KSÍ.