Konur eru í síauknu mæli að njóta mótorfáka bæði hérlendis sem erlendis og vestur í Bandaríkjunum eru þær nú orðnar 19% þeirra sem aka mótorhjólum. Á síðustu 10 árum hefur kvenkyns mótorhjólamönnum fjölgað um nær helming, þ.e. farið úr 10% í 19%. Mestur hluti þessarar fjölgunar er á meðal yngri kvenna og samkvæmt frétt frá RideApart eru 22% mótorhjólamanna af X-kynslóðinni kvenfólk og 26% af svokallaðri GenY-kynslóð. Svokölluð Baby Boomers kynslóð sem farin er að eldast er að heltast úr lestinni á meðal mótorhjólamanna, en þeirri kynslóð fylgdi svo til einokun karlmanna á mótorhjólum. 

Á meðal þeirra kvenna sem eru á mótorhjólum segja 66% þeirra að fjölskyldur þeirra og vinir líti jákvæðum augum á mótorhjólmennsku þeirra. Þessari breyttu hegðun hafa framleiðendur mótorhjóla þurft við að bregðast í mótorhjólaúrvali sínu og búist er við því að þetta hækkandi hlutfall kvenna meðal mótorhjólanotenda muni bara aukast. Samkvæmt könnun í Bandaríkjunum eyða þær konur sem nota mótorhjól þar að meðaltali 574 dollurum í viðhald, dekk, viðgerðir, aukahluti og viðgerðir á mótorhjólum sínum árlega, en karlmenn aðeins 497 dollurum. Margar konur eru að auki orðnar ansi lunknar við viðgerðirnar sjálfar.