Salman bin Abdul Aziz al-Saud, konungur Sádi-Arabíu, hefur fyrirskipað að rannsókn fari fram á örlögum blaðamannsins Jamal Khashoggi sem saknað hefur verið síðan í byrjun októbermánaðar. Bloomberg greinir frá.

Síðast sást til Khas­hoggi 2. októ­ber þegar hann gekk inn á ræðis­manns­skrif­stofu Sádi-Arabíu í Istanbúl í Tyrk­landi. Hann er blaða­maður Was­hington Post og hefur verið iðinn við að gagn­rýna stjórn­völd í heima­landi sínu. 

Yfir­völd í Tyrk­landi telja að Khas­hoggi hafi verið pyntaður, myrtur og lim­lestur af á skrif­stofunni af út­sendurum, en mynd­bands­upp­tökur sýna hann fara inn á skrif­stofuna en aldrei koma aftur út. Sá­diarabísk yfir­völd hafa þver­tekið fyrir að Khas­hoggi hafi verið myrtur. 

Donald Trump, for­seti Banda­ríkjanna, hefur heitið refsingum komi í ljós að Sádi-Arabar beri á­byrgð á dauða Khas­hoggi. Þá hafa nokkrir styrktar­aðilar, fyrir­tæki og fjöl­miðlar látið til sín taka. Sumir með því að snið­ganga stóra fjár­festa­ráð­stefnu í höfuð­borginni Ríad í Sádi-Arabíu, en aðrir með því að hætta við fjár­festingar eða við­skipti við landið. 

Full­trúar Salmans úr konungs­höllinni segja að við rann­sókn málsins verði notast við gögn frá tyrk­neskum yfir­völdum. Í til­kynningunni segir jafn­framt að mikil­vægt sé að sann­leikurinn komi í ljós. 

Í dag fer fram sam­eigin­leg skoðun tyrk­neskra yfir­valda og sá­diarabískra á ræðis­manns­skrif­stofunni.