Belgískur á­frýjunar­dóm­stóll komst ný­verið að þeirri niður­stöðu að hinn 84 ára Albert II, fyrr­verandi konungur Belgíu, skuli sektaður um 5 þúsund evrur á dag fari svo að hann neiti að gangast undir faðernispróf. Er það jafn­virði 687 þúsund ís­lenskra króna.

Hinn 84 ára Albert af­salaði tign sinni árið 2013 en hann hafði þá ríkt frá árinu 1993 eftir að hafa tekið við krúnunni af eldri bróður sínum, Baudouin konungi. Það var í febrúar á þessu ári að Albert neitaði ganga undir faðernispróf sem ætlað er að skera úr um hvort hann sé faðir hinnar fimm­tugu Delp­hine Boël.

Að­dragandi þessarar niðurstöðu er nokkuð langur en sögu­sagnir af meintu fram­hjá­haldi Alberts fóru fyrst á kreik skömmu fyrir alda­mót. Í bók sem gefin var út árið 1999 segir að barónessan Sybil­le de Selys Longchamps og Albert hafi átt í sam­bandi á árunum 1966 til 1984 þegar hann hafði titilinn prinsinn af Liège. Hann var þá, og er raunar enn, giftur Paolu Ruf­fo di Cala­bria, síðar Paola Belgíu­drottning.

Delp­hine Boël er handviss um að Albert sé faðir sinn. Hann er sagður hafa haldið við barónessuna Sybil­le de Selys Longchamps um árabil.
Fréttablaðið/Getty

Albert þver­tekur fyrir að hafa átt í fram­hjá­haldi með barónessunni en neitar engu að síður að gangast undir erfða­próf. Niður­staða dómsins er, sem fyrr segir, að konungurinn fyrr­verandi skuli gefa munn­vatns­sýni ellegar greiða 5 þúsund evrur í dag­sektir.

Filippus, sonur Alberts, tók við krúnunni árið 2013. Albert er sagður þéna um eina milljón evra ár­lega, jafn­virði um 137 milljóna króna.

Frétt BBC um málið.