Japanir hafa vitað árum saman að ganga í skógi sé góð fyrir líkama og sál en sífellt bætist í aðdáendahóp skógarbaðsins eins og slík ganga er kölluð. Katrín hertogaynja af Cambridge er á meðal aðdáenda en innblásturinn að garðinum sem hún hannaði ásamt fleirum fyrir blómasýninguna í Chelsea í vor kom frá skógarböðum.

„Shrinrin-yoku“ var þróað á níunda áratug síðustu aldar í Japan. Japanir höfðu þó farið í slík skógarböð öldum saman en nýjar rannsóknir höfðu þá leitt í ljós að núvitundargöngur í skógi gætu lækkað blóðþrýsting, lækkað kortisól í blóði og bætt einbeitingu og minni. Efni sem tré og plöntur gefi frá sér hjálpi jafnframt ónæmiskerfinu. Með þessi vísindi að baki ákvað ríkisstjórn Japans að gera skógarböð hluta af opinberri heilsueflingu. Skógarböð á að stunda í forvarnarskyni en 80% Japana búa í borgum.

Nordicphotos/Getty

Fyrir fólk sem er mikið inni getur skógarbað hjálpað til við streitulosun og falið í sér kærkomna endurnæringu að loknum annasömum degi. Þarna gefst gott tækifæri til að tengja við náttúruna, hlusta á vindinn og fylla vitin af skógarilmi. Fyrir nokkrum áratugum hefði verið erfitt að stunda skógarböð á höfuðborgarsvæðinu en nú eru breyttir tímar og skógræktarfélög eru með skemmtileg útivistarsvæði í nágrenni borgarinnar með fjölbreyttum gönguleiðum. Best er að skilja símann eftir heima og njóta núsins í slíkum göngum.