Það sem af er ári hafa konur verið ráðnar framkvæmdastjórar í aðeins 20 prósentum nýráðninga, samkvæmt gögnum Creditinfo.

Konur eru nú framkvæmdastjórar í um 18 prósentum virkra fyrirtækja, en þá er horft til um 6.000 fyrirtækja sem eru með virkan rekstur og tekjur yfir 30 milljónum króna síðustu ár.

Konur bera enn skarðari hlut frá borði ef horft er til rúmlega 1.000 tekjuhæstu fyrirtækjanna, en þá er hlutfallið um 13 prósent. Þetta kom fram á ráðstefnu Jafnvægisvogar Félags kvenna í atvinnurekstri í gær.

„Við sjáum í gögnum okkar að almennt séð lækkar hlutfall kvenna í framkvæmdastjórastöðum eftir því sem fyrirtæki eru stærri. Niðurstaðan er í takti við það sem við höfum séð undanfarin ár, en vissulega mikil vonbrigði að hægt hafi aftur á ráðningum kvenna í stöður framkvæmdastjóra,“ segir Gunnar Gunnarsson, forstöðumaður greiningar og ráðgjafar Creditinfo á Íslandi.

Tölur Creditinfo sýna að í hópi 1.000 tekjuhæstu fyrirtækja er hlutfall kvenna meðal æðstu stjórnenda hæst í ferðaþjónustu og afþreyingu, 20 prósent, en lægst í framleiðslufyrirtækjum, um 8 prósent.

Til að hlutfall kynjanna verði nokkuð jafnt fyrir árið 2027, þyrfti hlutfall kvenna af nýráðningum framkvæmdastjóra strax að verða um 70 prósent.