Ellý Katrín Guðmundsdóttir fékk ekki að njóta aðstoðar fulltrúa síns inni í kjörklefa vegna túlkunar kjörstjóra á hæfni hennar til að greiða atkvæði.
Ellý Katrín greindist með Alzheimer fyrir um fimm árum. Hún er fyrrverandi borgarritari og sviðsstjóri hjá Reykjavíkurborg og var sæmd riddarakrossi í fyrra fyrir störf á opinberum vettvangi og framlag til opinskárrar umræðu um Alzheimer sjúkdóminn. Magnús Karl Magnússon, eiginmaður Ellýar og fulltrúi, segir táknrænt að þurfa á alþjóðlegum degi Alzheimer að kæra málið til kjörstjórnar.
Túlkun um „ónothæfa hönd“
Ef kjósandi getur ekki áritað kjörseðil sinn vegna sjónleysis eða vegna þess honum sé hönd ónothæf má kjósandinn njóta liðsinnis aðstoðarmanns eða fulltrúa í kjörklefa. Áður fyrr átti kjörstjóri að fylgja téðum kjósendum inn í kjörklefann en þessu var breytt árið 2012 eftir að baráttukonan Freyja Haraldsdóttir neitaði að þiggja aðstoð kjörstjóra og krafðist þess að geta greitt sitt atkvæði með hjálp frá aðstoðarkonu sinni.
Hjónin mættu á kjörstað utan kjörfundar í gær til að kjósa og lýstu því yfir að Magnús væri fulltrúi Ellýar til aðstoðar, rétt eins og þau gerðu við síðustu Alþingiskosningar fyrir fjórum árum. Magnús lýsir því að kjörstjóri hafi rætt við hjónin og sagt að slík aðstoð gilti einungis fyrir kjósendur sem uppfylltu fyrrnefnt skilyrði, sem hjónin segja að eigi sannarlega við um Ellý.
„Mér misbauð að þurfa að rökræða við kjörstjóra um fötlun Ellýar í opnu rými fyrir framan kjörklefann. Mér fannst það mjög óþægilegt. Eiginkona mín er með þvílíkt jafnaðargeð og ég þekki vart annað eins en hún var sammála mér að þetta var ekki rétt framkvæmt,“ segir Magnús í samtali við Fréttablaðið.
„Það er ekki vafamál í mínum huga að ef einstaklingur fær ekki stuðningsríkt viðmót þá fælir það fólk frá.“

Lögin túlkuð gegn hagsmunum kjósandans
Magnús fékk ekki að fara inn í kjörklefann með Ellý til að hjálpa henni að kjósa.
„Sjúkdómur Ellýar er ósýnilegur. Hún lítur út eins og eðlileg manneskja og yfirbragð hennar og viðbrögð eru þannig líka en á sama tíma eru fjölmargar athafnir skertar. Hún getur ekki lengur skrifað og það er erfitt og viðkvæmt mál fyrir hana,“ segir Magnús.
„Það er ekki vafamál að höndin hennar sé ónothæf til að framkvæma þessa athöfn. Nú eru um tíu aðilar í kjöri og margir stimplar og bókstafir. Kjörstjórinn vísaði henni í kjörklefa, taldi upp alla bókstafina og útskýrði hvað þeir táknuðu, dró svo fyrir tjaldið og ætlaðist til að hún gæti framkvæmt þetta,“ útskýrir Magnús. Á endanum fylgdi kjörstjóri henni inn í kjörklefann og aðstoðaði hana við að kjósa en Magnús telur að kjörstjóri hafi túlkað málið gegn hagsmunum Ellýar.
„Kjörstjórinn fer í það að meta þetta læknisfræðilega mat um hendina og túlkar það gegn hagsmunum kjósandans. Kjörstjórinn má ekki fara inn að aðstoða nema að hún uppfylli þetta skilyrði sem á sama tíma ætti að veita henni rétt að fá sinn fulltrúa. Þá er kosningaleyndin farin sem hefur verið mikilvæg fyrir Ellý alla tíð.“

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður landssamtakanna Þroskahjálpar, skrifaði grein í gær að hvetja kjörstjórnir að tryggja að aðgengi á kjörstað sé hindrunarlaust og öruggt. Magnús segir að viðmótið sé gríðarlega mikilvægt til að fæla ekki kjósendur frá kjörstað.
„Það er ekki vafamál í mínum huga að ef einstaklingur fær ekki stuðningsríkt viðmót þá fælir það fólk frá. Eftir þessa færslu hef ég heyrt frá fólki sem er í sömu stöðu og er taugaóstyrkt í kosningunum. Ég get ekki séð hvernig kjósandi myndi misnota svona atkvæði til að fá aðstoð.“
Kosningar utan kjörfundar eru í umsjón Sýslumanns og dómsmálaráðuneytisins.