Aðeins rúmlega þriðjungur fólks á kosningaaldri er ánægður með hvernig Alþingi lauk afgreiðslu talningarmálsins svokallaða, samkvæmt nýrri skoðanakönnun Prósents. Af þeim sem tóku þátt í könnuninni eru 46 prósent óánægð með að seinni talningin í Norðvesturkjördæmi hafi verið látin standa.

„Þetta endurspeglar auðvitað það að atburðirnir sem áttu sér stað í norðvestri voru alvarlegir og meiriháttar klúður. Þeir hafa örugglega orðið til þess að rýra traust á kosningafyrirkomulaginu upp að einhverju marki, þótt það traust sé líklega ekkert horfið,“ segir Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði.

„Þetta er það sem við mátti búast miðað við alvarleika málsins.“

Eiríkur segir niðurstöðu könnunarinnar þó ekki koma á óvart. „Þetta er það sem við mátti búast miðað við alvarleika málsins. Það er líka erfitt að átta sig á hvað hinir óánægðu hefðu viljað gera í staðinn. Hvort þeir hefðu viljað láta fyrri talningu standa, hvort þeir hefðu viljað láta kjósa aftur í Norðvesturkjördæmi eða hvort kosningarnar yrðu í heild sinni ógildar. Það liggur ekki fyrir,“ segir Eiríkur.

Ánægja vex með hækkandi aldri

Fólk á aldrinum 25 til 44 ára er óánægðast með afgreiðslu Alþingis á talningarmálinu svokallaða, samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar Prósents. Aðeins 27 prósent þessa aldurshóps eru ánægð með afgreiðslu þingsins. Yfir fimmtíu prósent þessa aldurshóps eru hins vegar óánægð með lendingu málsins.

Ánægja með afgreiðslu þingsins vex svo með hækkandi aldri en ánægjan nær þó ekki yfir 50 prósent í neinum aldurshópi.

Lítill munur er á afstöðu kynjanna til málsins en karlar eru þó ívið ánægðari með afgreiðslu þingsins en konur.

Landsbyggðin ánægðari en borgarbúar

Svipaða sögu er að segja um afstöðu eftir búsetu. Landsbyggðin er ívið ánægðari með niðurstöðu málsins á þingi en fólk af höfuðborgarsvæðinu.

Ánægja mælist minnst meðal þeirra sem minnstar hafa tekjur en fjórðungur þeirra er einnig fjölmennasti hópur þeirra sem segist hvorki ánægður né óánægður með afgreiðslu þingsins á málinu.

Sjálfstæðismenn ánægðastir

Mestan mun má sjá meðal svarenda könnunarinnar þegar svör eru greind eftir því hvernig þátttakendur kusu í alþingiskosningunum.Þannig eru sjötíu prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins ánægð með afgreiðslu þingsins á málinu og 52 prósent kjósenda Framsóknar. Aðeins 38 prósent kjósenda Vinstri grænna eru ánægð með afgreiðslu þingsins en 40 prósent þeirra eru óánægð.

Þingflokkur VG klofnaði í atkvæðagreiðslu um málið þar sem nokkrir þingmenn flokksins greiddu atkvæði gegn því að staðfesta kjörbréf þeirra sem náðu kjöri vegna seinni talningar í Norðvesturkjördæmi, en aðrir þingmenn flokksins greiddu atkvæði með staðfestingu allra kjörbréfa.

Mun fleiri kjósendur Miðflokksins og Flokks fólksins eru óánægðir en þeir kjósendur flokkanna sem ánægðir eru með lendingu þingsins. Þingmenn beggja flokka greiddu atkvæði með staðfestingu kjörbréfa á grundvelli seinni talningarinnar.

Mun meiri óánægja er þó með niðurstöðu þingsins meðal kjósenda annarra stjórnarandstöðuflokka. Mest er óánægjan meðal kjósenda Pírata, þar sem 84 prósent eru óánægð með niðurstöðuna.

Eiríkur segir að niðurstöðurnar endurspegli hvað atburðirnir í Norðvesturkjördæmi hafi verið alvarlegir.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

„Ríkisstjórnarflokkarnir eru auðvitað ánægðari með þessar niðurstöður, sér í lagi kjósendur Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins,“ segir Eiríkur sem kemur á óvart hve munurinn milli kjósenda flokkanna sé mikill.

„Þetta fellur líka saman við aðra línu í íslenskum stjórnmálum. Það er þessi þungamiðja í íslenska flokkakerfinu – fylgjendur þeirra flokka eru ánægðari með niðurstöðurnar en kjósendur þeirra flokka sem hafa stillt sér upp sem kerfisbreytingaflokkar.“

Athygli vekur að rétt tæpur helmingur þeirra sem segjast ekki hafa kosið, eða 49 prósent, segjast óánægð með lendingu þingsins.

Könnunin var framkvæmd dagana 1. til 10. desember 2021. Um netkönnun var að ræða meðal könnunarhóps Prósents. Könnunin var send til 2.300 einstaklinga 18 ára og eldri. Svarendur voru 1.141 og svarhlutfallið 49,6 prósent.