Björn Þorláksson
Föstudagur 17. september 2021
23.00 GMT

Valgerður Þorsteinsdóttir kærði árið 2014 ítrekuð kynferðisbrot eldri karlmanns í Grímsey. Brotin sagði hún hafa átt sér stað frá því hún var fjórtán ára. Skiptust íbúar eyjunnar í tvær fylkingar og upplifði Valgerður að hún ætti lítinn séns gegn ómanneskjulegu kerfi.

Í janúar 2015 steig Valgerður Þorsteinsdóttir fram í Akureyri vikublaði og sagði frá meintum kynferðisbrotum sem hún varð fyrir í Grímsey. Hún sagði að brotin hefðu byrjað þegar hún var á fermingaraldri og hefðu staðið yfir um nokkurra ára skeið. Gerandinn hefði einnig brotið gegn sér nokkrum sinnum í Reykjavík. Valgerður sagði að um ítrekaða nauðgun hefði verið að ræða og kærði málið til lögreglu.

Það var fátítt á þessum tíma að kona um tvítugt þyrði að stíga fram undir nafni með slíkar ásakanir gagnvart voldugum manni. Þótt hann nyti nafnleyndar, og verður sama regla viðhöfð nú, vissu allir eyjarskeggjar og margir fleiri uppi á landi um hvern var rætt.

Málið hafði áhrif á útgerðarmál og samstöðu eyjarskeggja. Hinn meinti gerandi flutti burt úr eynni sem sat tvíklofin eftir á heimskautsbaugnum miðjum. Valgerður, sem aldrei hefur rætt þetta mál í fjölmiðlum síðan hún rauf þögnina fyrir tæpum sjö árum, stígur nú aftur fram, að sögn til að loka eigin sögu og tala til annarra þolenda, brýna þá til dáða, þótt reynslan af ofbeldinu og kærumálunum hafi um tíma gengið mjög nærri henni sjálfri.

Valgerður segir baráttu sína fyrir réttlæti hafa tekið mikið á eftir að hún kærði kynferðisbrot sem hún segist hafa orðið fyrir um árabil sem barn. En hún muni aldrei gefast upp. Fréttablaðið/Valli

Úti er hellirigning og sjór ansi úfinn við Faxaflóann þegar við setjumst niður að kvöldi dags.

„Ég mun aldrei sjá eftir að hafa barist fyrir sjálfri mér. Það getur enginn barist eins vel fyrir mann og maður sjálfur. Ég veit líka að það sem ég gerði á sínum tíma, að koma fram og segja frá, hjálpaði rosalega mörgum öðrum. Það veit ég vegna ótalmargra skilaboða sem bárust mér, mest frá konum. Það var í raun eftir öll viðbrögðin sem ég uppgötvaði hvað það er mikilvægt fyrir aðra brotaþola að einhver sé með rödd þarna úti, tali og segi frá. Það er svo gott að vita að maður er ekki einn.

Viðamikil kynferðisbrotamál hafa verið áberandi í umræðunni undanfarið og segist Valgerður umfjöllunina sannarlega hafa náð til sín.

Já, það hefur verið mjög „trigg­erandi“ fyrir mig að fylgjast með opnun þeirra mála, sérstaklega þegar frásagnir þolenda eru rengdar. Aftur á móti hef ég verið mjög ánægð með að samstaðan er miklu meiri nú en var þegar ég steig fram. Það eru miklu fleiri sem segja frá, fleiri sem tala og æ fleiri taka mark á okkur sem er ótrúlega gott. Þegar ég sagði frá þótti algjört tabú að ræða þetta, engin #MeToo-bylting var orðin að veruleika og ekkert öryggisnet til að grípa þolendur.


Í raun vonlaus barátta


Blaðamaður minnir Valgerði á að mikið hafi breyst á undanförnum árum og mikið hugrekki hafi þurft til að stíga fram á þann hátt sem hún gerði.

„Já, já, ég átta mig vel á því í dag hvað þetta var mikill slagur, í raun alveg vonlaus barátta fyrir rúmlega tvítuga stelpu að berjast í þessu. En það var einhver réttlætiskennd sem keyrði mig áfram, einhver baráttukraftur.

Ég er mjög þakklát að hafa fengið styrk til að berjast þótt þetta hafi verið mjög erfitt allt saman og ýmsar afleiðingar. Ég hef gert mér grein fyrir að réttlætinu verður ekki alltaf fullnægt fyrir dómstólum en það hefur gert mjög mikið fyrir mig að heyra í öðrum konum sem hafa stigið fram. Þegar margir setja sig upp á móti manni og rengja frásögn, þá getur það alveg gerst að maður efist um sjálfa sig, en það má maður alls ekki gera.“


„Þegar margir setja sig upp á móti manni og rengja frásögn, þá getur það alveg gerst að maður efist um sjálfa sig, en það má maður alls ekki gera.“


Fékk hótun um kæru í skólanum

Aðspurð um neikvæðar afleiðingar eða fórnarkostnað þess að stíga fram segist Valgerður hafa vitað að norður í Grímsey skiptist fólk í tvær fylkingar.

„Eftir viðtalið hafði nánast enginn beint samband við mig, sem var ansi sérstakt. Hins vegar fékk ég nánast strax bréf frá Vilhjálmi Vilhjálmssyni lögfræðingi um að gerandinn ætlaði að höfða meiðyrðamál gegn mér. Vilhjálmur var svo smekklegur að senda mér kæruna í Facebook-skilaboðum, þar sem ég sat í tíma í skólanum mínum.


„Vilhjálmur var svo smekklegur að senda mér kæruna í Facebook-skilaboðum, þar sem ég sat í tíma í skólanum mínum."


Sennilega aðallega til að hræða mig fyrir hönd mannsins. En ég er enginn bjáni. Ég hringdi strax í mína lögfræðinga sem sáu um þetta og það varð ekkert úr meiðyrðamálinu, enda engin innistæða fyrir lögsókn. Og þótt það væru fáir í eynni sem höfðu beint samband við mig fékk ég oft að vita í gegnum þriðja aðila hverjir efuðust um það sem ég hafði að segja og hverjir það voru sem ætluðu ekki að taka afstöðu.“

Erfitt að heimsækja Grímsey

Afi Valgerðar bjó í Grímsey og hún hafði starfað í eynni á sumrin. Hvernig ætli hafi verið að heimsækja eyna eftir að málið varð opinbert?

„Það liðu mörg ár þangað til ég fór aftur til Grímseyjar og það var góð ástæða fyrir því. Það var mjög erfitt. Sem dæmi voru frændi minn og sonarsonur mannsins að fermast á sama tíma. Það er óskrifuð regla í Grímsey að skólasystkini fermast saman og alltaf er haldin sameiginleg veisla. En ég gat ekki farið í fermingarveisluna hjá litla frænda mínum af því að ég vissi að fjölskylda gerandans yrði þarna.“


„En ég gat ekki farið í fermingarveisluna hjá litla frænda mínum af því að ég vissi að fjölskylda gerandans yrði þarna.“


Valgerður segist hafa upplifað marga dökka daga fyrst og fremst persónulega, en sem fyrr segir urðu einnig samfélagsleg áhrif af málinu.

Fékkstu jafnvel að heyra að það væri þér persónulega að kenna ef byggð myndi eyðast í eynni?

„Kannski ekki beint en ég upplifði að þetta mál hafði gífurleg áhrif í svo margar áttir. Svo eitt sé nefnt þá fluttu þessi hjón frá Grímsey eftir að ég kærði og sagði frá.“

Upplifðirðu að íbúarnir skiptu sér í tvær fylkingar?

„Já og þess vegna barðist ég, ég barðist af því ég þurfti að gera það, ég þurfti að berjast fyrir því að fólk hlustaði. Ekki bara út af mér heldur vegna þess að eftir að ég sagði frá stigu miklu fleiri konur fram sem höfðu vondar sögur af manninum að segja.“

Var svo sjúkt

Eftir því sem fram kom í fréttum á sínum tíma steig önnur kona fram undir nafni og lýsti því hvernig maðurinn hefði líka áreitt hana. Hún sendi ríkissaksóknara bréf, framburði Valgerðar til stuðnings. En allt kom fyrir ekki.

„Ég er þakklát þessari konu en það kom mér í raun ekki mjög á óvart þegar lögfræðingurinn bar mér þær fréttir frá saksóknara að málinu væri vísað frá. Mig grunaði að það yrði vísað í að þarna stæði orð gegn orði. Í raun upplifði ég ákveðinn létti þegar málinu lauk. Það fer enginn í svona málsókn að gamni sínu, hún getur tekið frá manni alla orku, þetta er alveg drulluerfitt.

Ég dáist stundum að sjálfri mér að hafa gengið í gegnum þetta allt. En það er dálítið erfitt að segja það upphátt að ég er ekki viss um að ég myndi treysta mér í dag til að endurtaka leikinn vegna allrar þeirrar mótbáru sem skall á mér.

Aðspurð hvort það hafi verið eitthvert eitt atvik sem leiddi til þess að hún kærði manninn, svarar Valgerður:

„Ég var í vetrarfríi í Grímsey þegar fundum okkar bar óvænt saman. Þá tilkynnti hann mér að hann hefði sagt konunni sinni frá okkur. Að hún viti en ég megi ekki segja frá.

Það var í rauninni þá sem ég ákvað að aðhafast. Hann vildi meina að við hefðum átt í ástarsambandi, sem er í rauninni galið.


„Hann vildi meina að við hefðum átt í ástarsambandi, sem er í rauninni galið."


Hann segir að „sambandið“ hafi verið með mínu samþykki og þar af leiðandi hafi reiði konunnar hans aðallega sprottið af því að hann hafi haldið fram hjá, en ekki því að hann hafði brotið á mér. Það var þá sem ég ákvað að kæra. Þetta var svo sjúkt.“


Gagnrýnir skýrslutöku lögreglu


Eins og Valgerður lýsir sjálf reyndi málið mjög á hana, en ætli henni hafi aldrei fallist hendur þegar bardaginn stóð sem hæst?

„Ég upplifði það mjög sterkt hve erfið þessi barátta reyndist, að leita réttar síns og segja frá. Það kom mér mjög á óvart hve erfitt það var að fara í yfirheyrslurnar,“ segir Valgerður og heldur áfram:

„Mér var úthlutað réttargæslukonu en við tengdumst aldrei neitt. Allt andrúmsloftið í yfirheyrslunum var rosalega þurrt og óþægilegt. Mér leið alltaf eins og ég þyrfti að berjast fyrir því að reyna að sannfæra viðstadda um að ég væri ekki að ljúga, líka réttargæslukonuna. Það var enginn mannlegur þáttur til staðar. Ég upplifði að það hefði verið hægt að vinna þessa vinnu miklu manneskjulegar en raunin varð og mér hefði fundist eðlilegra ef sálfræðingur hefði verið kallaður til.


„Mér leið alltaf eins og ég þyrfti að berjast fyrir því að reyna að sannfæra viðstadda um að ég væri ekki að ljúga, líka réttargæslukonuna."


Það var svo viðbjóðslega erfitt að segja svona hluti upphátt, allt sem ég hafði grafið. Að segja hluti sem ég hafði ekki einu sinni leyft mér að hugsa til enda, hvað þá að segja þá upphátt við einhvern þurran rannsóknarlögreglumann á Akureyri.

Um leið og spurningarnar fóru að snúast um: Hvernig þekkirðu þennan? Um leið og allt varð svona kalt og fjarlægt þá leið mér eins og ég væri komin aftur í miðaldir, ég átti engan séns gegn kerfinu,“ segir Valgerður með miklum þunga. Úti er hætt að rigna og einn feiminn sólargeisli laumar sér inn um glugga áður en kvöldrökkrið tekur yfir.

Stundum ekki nóg að segja frá

„Maður má ekki gefast upp en málin eru bara svo mörg. Til dæmis þegar Robert Downey fékk uppreist æru. Hvernig gat það gerst?

Það er ekki skrýtið að við konur séum hræddar við að aðhafast og stíga fram, sagan sýnir okkur aftur og aftur að við fáum það í andlitið að leita réttar okkar. Í þessu Robert Downey máli kannaðist ég við nokkrar stelpur sem tengdust því, stelpur sem börðust og börðust og börðust. Fyrir þær var það auðvitað eins og drullublaut ísköld tuska í andlitið að maðurinn skyldi fá uppáskrift um að samfélagið hefði samþykkt hann og hans fyrri verk. Strikað yfir fortíð hans.“

Valgerður stundar bæði píanó- og söngnám við FÍH og elskar að segja sögur með tónlistinni. Fréttablaðið/Valli

Hvernig finnst þér eftir að hafa tapað málsókninni að þú getir barist áfram fyrir réttlæti eins og var yfirskrift viðtalsins árið 2015?

„Fyrst og fremst með því að þegja ekki. Tala, segja frá. Ef fólk upplifir eitthvað sem áreiti eða óþægilegt þá þarf fólk að geta rætt það. Enginn á að þurfa að glíma við ofbeldi einn, það kemur ekkert gott úr því. Það er mjög erfitt að vinna úr svona hlutum sjálfur.

En stundum er ekki nóg að segja frá. Ég hélt lengi vel að sú leið að segja frá til að vinna í sjálfri mér myndi duga, en svo komst ég að því að ég hafði ekki unnið markvisst úr mínum áföllum.“

Hætti að drekka

Í hverju fólst þá þitt bjargræði þegar þú uppgötvaðir að þú værir enn að burðast með sekt sem ekki var þín?

„Ég hætti að drekka og sú sem hjálpaði mér að sjá það, var sponsorinn minn sem ég fór í gegnum reynslusporin með. Það var í rauninni hún sem opnaði augu mín fyrir því að ég gæti ekki borið ábyrgð á því sem gerðist þegar ég var fjórtán ára. En hún þurfti að segja mér það aftur og aftur og aftur. Hugsaðu þér.“

Í nóvember er liðið eitt ár frá því að Valgerður hætti allri áfengisneyslu.

„Að hætta að drekka hefur gefið mér frelsi til að taka góð skref. Mín reynsla er að áfengið heldur manni oft tilfinningalega föstum, maður staðnar og nær ekki að vinna úr áföllum. Ég gat ekki unnið úr mínum áföllum, ekki fyllilega, fyrr en ég varð allsgáð.“


„Ég gat ekki unnið úr mínum áföllum, ekki fyllilega, fyrr en ég varð allsgáð.“


Talið berst að breyttum lífsstíl ungmenna, að ekki þykir lengur nauðsynlegt að ganga í gegnum manndómsvígsluna sem fólst í brennivíni og öðru þvíumlíku ekki alls fyrir löngu.

„Já, það er frábært að nú stefni í að einn daginn verði meira norm að drekka ekki en að drekka. Ég tek eftir því á börum og í veislum að það er yfirleitt núorðið boðið upp á óáfenga drykki, hellingur af fólki er edrú. Mér finnst frábært að krakkar í menntaskólanámi séu ekki lengur settir í þá stöðu að þurfa að drekka, mér finnst það æðislegt.“

Aðspurð hvort hún telji kynferðisbrotin hafa valdið alkóhólismanum að einhverju leyti svarar Valgerður:

„Ég veit það ekki en þegar ég þurfti að ganga í gegnum það sem ég gekk í gegnum auðveldaði áfengið mér aldrei samskipti við hitt kynið, það jók aldrei mína sjálfsvirðingu eða annað slíkt.“

Af hverju gerðirðu þetta?


Aðspurð segir Valgerður gerandann klárlega hafa haft áhrif á það hvernig hún mótaðist sem einstaklingur.

„Orðum það bara þannig að fjórtán ára börn eiga ekki að þurfa að hafa áhyggjur af öðru en hvort þau mæti of seint á handboltaæfingu eða hvort sá sem maður er skotinn í sé skotinn til baka. Vissulega eru alls konar brestir oft í fjölskyldum en þessi maður níddist á minni máttar. Sú spurning mun alltaf lifa hjá mér: Af hverju gerðirðu þetta?“


„Vissulega eru alls konar brestir oft í fjölskyldum en þessi maður níddist á minni máttar."


Valgerður segir þá staðreynd að þolendur séu í auknum mæli farnir að segja frá ofbeldi kveikja hjá sér von um betri heim.

„Ég held líka að vonin felist í aukinni samstöðu hjá þolendum, ég held hún sé mjög mikilvæg. Mér finnst líka að karlmenn séu að koma inn með sterkari rödd, sem er frábært. Auðvitað snerta þessi mál karla alveg eins og konur.“

Heldurðu að heimurinn sé fullur af fólki sem gerir það sem það gerir af því að fólk heldur að það komist upp með það?

„Ég er ekki í vafa um það og þess vegna er svo mikilvægt að halda þessari umræðu opinni. Af hverju ættu konur að hópast saman og ljúga sökum upp á einhverja menn?"

Með listina í liði með sér


Við Valgerður látum staðar numið í þessu erfiða máli sem hún hefur rætt hnarreist með þungri undiröldu. Hún þarf að drífa sig heim og sinna listrænni köllun. Hún stundar bæði píanó- og söngnám við FÍH og starfar auk þess í lausamennsku hjá True North við framleiðslu. Sigrarnir að baki eru margir þrátt fyrir allt. Hún segist nýbúin að semja lag fyrir ADHD-samtökin og hefur sérstakt dálæti á gömlum íslenskum dægurlögum og djassstandördum.

Valgerður elskar sjóinn en stundum hafa brimskaflar lífsins gengið nærri henni. Fréttablaðið/Vall

„Ég er eldgömul sál, ég er 3.000 ára gömul sál sem elskar að segja sögur í gegnum texta, ljóð, lög.

Listin hefur alltaf verið mín leið til að koma hlutunum frá mér. Listin hefur ekki bara verið mér nauðsynleg til að glæða lífið inntaki heldur hefur listin líka virkað eins og þerapía. Ég skrifa líka og mála. Allt helst í hendur.“

Athugasemdir