Konunni sem stal tölvu Nancy Pelosi í innrásinni á þinghús Bandaríkjanna fyrr í mánuðinum hefur verið sleppt úr haldi lögreglunnar. Konan er aðeins 22 ára gömul og heitir Riley Williams. Greint er frá á vef NPR.

Williams var handtekin síðasta mánudag og á yfir höfði sér fjölda ákæra vegna þjófnaðar, innbrots og óspekta í þinghúsinu og nærri því. Henni var sleppt úr haldi en með skilyrðum um farbann. Henni var sleppt gegn því að móðir hennar tæki hana í sína umsjón. Málið verður tekið fyrir í alríkisdómstól næsta mánudag í Washington.

Williams þarf að bera ökklaband og getur aðeins yfirgefið heimili móður sinnar til að fara til vinnu. Ef hún þarf að gera eitthvað annað þarf það að vera samþykkt af dómstólnum.

Lögmaður Williams segir það miður að Williams hafi farið inn í þinghúsið.

Ónafngreindur fyrrverandi kærasti Williams greindi Alríkislögreglunni, FBI, frá því að Williams hafi ætlað að selja rússnesku leyniþjónustunni tölvuna. Tölvan var víst aðeins notuð fyrir kynningar að sögn starfsmanns skrifstofu Pelosi.

Fleiri en 150 einstaklingar hafa verið handtekin víða um Bandaríkin í tengslum við innrásina í þinghúsið þann 6. janúar.