Riley June Williams, 22 ára kona frá Pennsylvaníu sem tók þátt í óeirðunum í þinghúsinu fyrr í mánuðinum, er nú í haldi Alríkislögreglu Bandaríkjanna, FBI, en hún gaf sig fram til lögreglu seint í gærkvöldi.
Williams var sögð hafa stolið tölvu af skrifstofu Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, sem hún hafi ætlað að selja Rússum. Hún sást í myndböndum og á myndum fyrir utan skrifstofu Pelosi.
Fyrrum maki bar kennsl á Williams
Ekki liggur fyrir hvort Williams hafi í raun stolið einhverju af skrifstofu Pelosi en málið er nú til rannsóknar. Hún hefur ekki verið ákærð fyrir þjófnað, samkvæmt frétt CNN, heldur aðeins fyrir að hafa ráðist inn í þinghúsið og óspektir þar.
Alríkislögreglan gaf út handtökuheimild á hendur Williams eftir að vitni, fyrrum maki Williams, sagðist hafa séð hana taka tæki, fartölvu eða harðan disk, af skrifstofu Pelosi og hafi ætlað að senda vini sínum í Rússlandi tölvuna sem síðan myndi selja hana til utanríkisleyniþjónustu Rússlands, SVR.
NEW: Riley Williams, the Pennsylvania woman accused by a tipster of stealing a laptop from Nancy Pelosi's office during the insurrection, has been arrested, a DOJ spokeswoman tells CNN. Per @davidgshortell & @evanperezhttps://t.co/Y2svKmujym
— Pervaiz Shallwani (@Pervaizistan) January 19, 2021
Flúði heimili sitt
Eiðsvarin yfirlýsing vitnisins var birt síðastliðinn sunnudag en þar kom fram að af óþekktum ástæðum hafi sala tækisins ekki gengið eftir og því væri hún enn með það. Móðir Williams greindi frá því í gær að hún hefði flúið heimili sitt í Harrisburg í kjölfarið og eytt öllum samfélagsmiðlum sínum.
Móðir Williams greindi frá því að dóttir hennar hafi farið ásamt föður sínum að Washington, D.C., þann 6. janúar til að mótmæla úrslitum kosninganna. Þá sagði hún að Williams hafi skyndilega haft mikinn áhuga á Trump og tæki þátt í umræðum öfgahópa á netinu.
Óttast frekari óeirðir
Þó nokkrir hafa verið handteknir í tengslum við óeirðirnar en síðastliðnar vikur hefur lögregla óskað eftir aðstoð almennings til að bera kennsl á fólk sem var á staðnum. Verið er að rannsaka fleiri en 200 manns í tengslum við óeirðirnar.
Óttast er að frekari óeirðir muni brjótast út þegar Joe Biden tekur við embætti forseta á morgun og því hefur öryggisgæsla verið aukin víða. Öldungadeildin mun í kjölfarið taka fyrir ákærur á hendur Trumps til embættismissis en Trump er ákærður fyrir að hvetja til uppreisnar í tengslum við óeirðirnar.
Thanks for your tips! The #FBI has arrested multiple people in connection with the violence at the U.S. Capitol last week. We need your help to identify more individuals at https://t.co/wodKjExKua. If you know someone on these posters, submit a tip at https://t.co/buMd8vYXzH. pic.twitter.com/AB4PjbbhmL
— FBI (@FBI) January 15, 2021