Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Vörð tryggingar til að greiða karlmanni 10 milljónir króna eftir að eiginkona hans ók á ljósastaur.

Málið á rætur að rekja til umferðarslyss sem hjónin lentu í árla morguns 3. maí 2018. Maðurinn var farþegi í framsæti bifreiðarinnar sem eiginkona hans ók. Maðurinn kvaðst hafa verið hálfsofandi þegar eiginkona hans missti stjórn á bílnum með þeim afleiðingum að hún ók á ljósastaur á hafnarfjarðarvegi við Arnarnesveg.

Maðurinn slasaðist alvarlega í slysinu og var fluttur með sjúkrabíl á bráðamóttöku. Þá hafði hann tognað í hægri öxl og hálsi og var með einkenni frá brjóstkassa. Líkamstjón hans var metið af lækni í fyrra en í matsgerðinni kemur fram að hann hafi hlotið varanlegan skaða af slysinu.

„Var niðurstaða matsmanna sú að varanlegur miski stefnanda væri 12 stig en varanleg örorka 12%. Tímabil þjáninga væri frá slysdegi til 29. maí 2018, án rúmlegu,“ segir í dómnum. Óskaði hann eftir bótum frá tryggingafélagi sínu vegna tekjumissis í kjölfar slyssins.

Fékk hann þau svör frá Verði að hann hafði ekki markað sér ákveðinn starfsvettvang hér á landi þegar slysið varð þar sem hann hafði eingöngu búið á Íslandi í tæpt ár og hafið fyrst störf um mánuði fyrir slysið en tjónþoli er Víetnamskur.

Dómurinn féllst á þrautavarakröfu mannsins, sem miðaðist við rauntekjur hans árið það ár en dómurinn mat svo að þær tekjur gæfu besta mynd af ætluðum framtíðartekjum hans á slysdegi.