Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri samtaka ferðaþjónustunnar hefur átt farsælan feril í sviðsljósinu. Hann var á tímabili aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar þáverandi forsætisráðherra og var nýverið kosinn í stjórn Samtakanna ´78.

Árið 2018 tók Jóhannes ákvörðun um að ræða tvíkynhneigð sína opinberlega. „Það var á hinsegin dögum í ágúst. Þetta var ákvörðun og það tók mig mjög langan tíma að átta mig á því hvar á þessu litrófi regnbogans ég væri staddur,“ segir Jóhannes. „Þetta er ekki svart og hvítt, þetta er skali,“ segir hann.

Jóhannes segir unglingsárin ekki hafa einkennst af vangaveltum um þessi málefni, heldur hafi það komið síðar. „Ég áttaði mig á því þegar ég var útskrifaður úr menntaskóla, á háskólaárunum á síðasta áratug síðustu aldar,“ segir hann og hlær.

„Þá var tvíkynhneigð hugtak sem hafði verið til, en var að komast meira í umræðuna,“ segir Jóhannes og rifjar upp umfjöllun Newsweek sem sló upp forsíðumynd með yfirskriftinni: Bisexuality: Not gay, not straight, a new sexual identity emerges. „Umræðan var einhvern veginn svona,“ segir hann.

Tölublað Newsweek frá árinu 1995 vakti gríðarlega athygli á sínum tíma. Nálgunin var þó ólíkt önnur en við eigum að venjast árið 2023 og samfélagið á öðrum stað en í dag.
Newsweek/Skjáskot

Jóhannes segir að á sama tíma hafi hljómsveitirnar Placebo og Brian Molko verið að hrista upp í ýmsum normum. „Þetta er það hugtak sem ég samsamaði mig þá við. Það tók mig langan tíma að átta mig á því hvað það þýddi og hvernig ég passaði inn í það.“

Hann segist hafa verið kominn út fyrir stórum hluta vinahópsins og fleirum. „Ég sagði við sjálfan mig: Þetta er ekkert leyndarmál ef einhver spyr mig. En svo spyr enginn, þannig að þetta er pínu sjálfsblekking,“ segir hann og hlær.

Ég sagði við sjálfan mig: Þetta er ekkert leyndarmál ef einhver spyr mig. En svo spyr enginn, þannig að þetta er pínu sjálfsblekking.

Eiginkona Jóhannesar, Æsa Strand Viðarsdóttir, er einnig tvíkynhneigð. „Við fundum okkur svolítið í sameiningu. Ég er búinn að vera giftur mjög lengi henni elsku Æsu minni, í þrjátíu og eitt ár, og ekki útlit fyrir breytingar á því.“

Hann segir tvíkynhneigðina ekki vera vandamál gagnvart fjölskyldunni. „Það sem á endanum ýtti mér út í það að tilkynna þetta með Facebook status, var að ég var fenginn í viðtal í Vikulokunum á laugardegi þegar Hinsegin dagar voru að hefjast, viku fyrir Gleðigönguna,“ útskýrir hann.

„Þar voru tvær frábærar baráttukonur úr hinsegin-samfélaginu, Þóra Kristín Ásgeirsdóttir og Hanna Katrín Friðriksson, og svo ég. Þá var verið að tala um Hinsegin daga og Gleðigönguna, og samfélagið. Það var svo augljóst hverra fulltrúi ég var, án þess að þetta væri sett þannig upp. Ég var þessi cis-het karl þarna, sem var ekki inni í þessu samfélagi. Ég fékk nóg af því að vera alltaf boxaður í vitlausan kassa og hugsaði, ókei nú geri ég bara eitthvað í þessu.“

Hann segir að ákvörðunin hafi verið bæði sjálfráð og ósjálfráð. „Ég hef orðað það þannig að ég hafi gefið sjálfum mér sjálfan mig. Að koma út úr þessum yndislega Ikea skáp sem var með smá lausum hengjum, en þó lokaður að einhverju leyti.“

Jóhannes segist hafa hringt í móður sína áður en hann birti Facebook-statusinn.

„Ég hafði svo sem engar áhyggjur af því, mér fannst bara skemmtilegra að tala við mömmu áður en ég setti þetta á Facebook. Þetta voru ekki hlutir sem mér fannst að fólk mér nánast ætti að vera að lesa á Facebook. Hún hafði aðallega áhyggjur af því að einhverjir vitleysingar í vinnunni væru að hafa áhyggjur af þessu, hún hafði engar áhyggjur af þessu sjálf.“

Hann kveðst þó meðvitaður um að fólk ræði málið úti í samfélaginu. „Það er smjattað á þessu, þetta er nýtt og safaríkt fóður fyrir kommentakerfin og fleira: Er hann kynvillingur líka þessi?“ segir Jóhannes léttur í bragði.

„Það er þetta öráreiti sem allt hinsegin fólk verður fyrir og almenningur í samfélaginu gerir sér ekki grein fyrir að það sé að valda.“

Jóhannes segist hafa upplifað mun fjölbreyttari lífsfyllingu en hann átti von á, eftir að hann steig opinberlega fram og horfðist í augu við kynhneigð sína.

„Þessi þátttaka í Hinsegin-samfélaginu á síðari árum núna, hefur gefið mér ofboðslega mikið.“