Konan á sextugsaldri sem fannst látin á heimili sínu í Hafnarfirði aðfaranótt mánudags hafði óskað eftir aðstoð lögreglu vegna ástands sonar síns, sem er grunaður um að hafa orðið henni að bana, fimm klukkustundum áður en hún lést.
Lögreglumenn mættu á staðinn og ræddu við manninn áður en þeir fóru. Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2. Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn segir að ekki hafi verið lagaskilyrði til að fjarlægja manninn af heimilinu.
Hann er grunaður um að hafa ráðist á móður sína um klukkan hálf tvö aðfaranótt mánudags og er talið að hún hafi látist vegna hnífsstungu. Sonurinn var úrskurðaður í ellefu daga gæsluvarðhald á mánudag.
Karl segir þá að viðbrögð lögreglu við fyrra útkallinu, fimm tímum áður en sonurinn réðst á móður sína, hafi þegar sætt skoðun og að ekkert hafi komið fram um að vinnubrögð lögreglumannanna hefðu átt að vera með öðrum hætti. Myndefni sé til af útkallinu úr búkmyndavélum lögreglumannanna sem búið sé að fara yfir.