Portúgölsk kona var dæmd í 14 mánaða fangelsi fyrir að flytja inn 956,82 grömm af kókaíni.

Málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjaness fyrr í mánuðinum og féll dómur í gær.

Konan var stöðvuð á Keflavíkurflugvelli 28. júní síðastliðinn með tæpt kíló af kókaíni, með 80 til 85 prósent styrkleika, ætlað til söludreifingar hér á landi. Fíkniefnin flutti hún til Íslands sem farþegi með flugi frá Lissabon. Fíkniefnin og farsími hennar voru gerð upptæk.

Fyrir dómi játaði konan afdráttarlaust sök en ekki kemur fram hvort hún hafi ein staðið að skipulagningu á kaupum og innflutningi.