Kona lést í umferðarslysi á gatnamótum Gnoðarvogs og Skeiðarvogs í Reykjavík á níunda tímanum í morgun, en tilkynning um slysið barst klukkan 8.32.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Ekki er hægt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu, en Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsaka tildrög slyssins.

Mikill viðbúnaður var á svæðinu í morgun og nokkrir lögreglu-, sjúkra-, og slökkviliðsbílar.

Farþegum og bílstjóra strætisvagnsins sem ekið var á gangandi vegfarenda um hálf níu leytið í morgun við gatnamót Gnoðarvogs og Skeiðarvogs var boðin áfallahjálp strax í kjölfarið hjá Rauða krossi Íslands.

Samkvæmt upplýsingum frá Strætó er ekki vitað hvort allir farþegar hafi þegið boðið.

Ef einhver fékk ekki viðeigandi aðstoð hvetur Strætó fólk til þess að nýta sér áfallaaðstoð.

Ekki er ljóst hversu margir farþegar voru í bílnum þegar slysið átti sér stað.