Á sjötta tímanum í gær var lögreglu tilkynnt um konu sem lagðist fyrir framan bíl á Miklubraut. Þetta kemur fram í orðsendingu frá lögreglu. Fram kemur að vegfarandi hafi verið búinn að færa konuna þegar lögreglu bar að garði.

Konan var að sögn í annarlegu ástandi, eins og það er orðað, og framvísaði fíkniefnum þegar lögregla hafði af henni afskipti. „Konunni var að loknum viðræðum ekið á heilbrigðisstofnun þar sem hún ætlaði að leita sér aðstoðar.“

Um klukkan hálf níu í gærkvöldi var ökumaður stöðvaður í Reykjavík eftir að hafa virt stöðvunarskyldu að vettugi. Hann er grunaður um að hafa ekið bílnum undir áhrifum fíkniefna. Í ljós kom að maðurinn hafði aldrei öðlast ökuréttindi. Hann gerðist líka sekur um brot á vopnalögum.

Fimm ökumenn til viðbótar voru teknir fyrir að aka undir áhrifum í nótt. Lögregla horfði á einn þeirra bakka bíl sínum á kyrrstæðan bíl en rúður bílsins voru ísilagðar.