Söngkona með burðarhlutverk í uppfærslu Íslensku óperunnar á Brúðkaupi Fígarós fékk 300 þúsund krónur greiddar í æfingalaun og 170 þúsund í sýningalaun en hefði samkvæmt taxta átt að fá tæpar 730 þúsund krónur. Söngvari sem lék minna hlutverk í sýningunni fékk 350 þúsund krónur greiddar og 120 þúsund í sýningalaun en hefði átt að fá rúmlega 580 þúsund krónur.

Annar söngvari í sams konar hlutverki og fyrrnefnd söngkonan fékk einnig 350 þúsund og 180 þúsund í sýningalaun, þ.e. hærri laun fyrir jafn stórt hlutverk og konan. Söngkonan er skráð með fleiri yfirvinnutíma en allir aðrir karlar í sýningunni en fékk ekki greitt fyrir það.

Steinunn Birna óperustjóri hefur vísað því alfarið á bug að kynbundinn launamunur þrífist innan Íslensku óperunnar en Fréttablaðið hefur undir höndum upplýsingar um laun allra flytjenda í óperunni ásamt sýningalaunum. Óperustjóri sagði í samtali við Fréttablaðið árið 2019: „Laun ákvarðast af stærð hlutverka og einnig hvort viðkomandi söngvari sé með aríur í verkinu. Oft eru kvenhlutverkin stærst en í Brúðkaupi Fígarós var vægi hlutverkanna mjög jafnt.“

Launamismunur er hluti af stærra vandamáli innan listgreina á Íslandi. Dansarar berjast einnig fyrir að fá sömu laun og leikarar og hefur gengið misvel að semja við stærstu leikhúsin.

Þóra Einarsdóttir sem fór með eitt af aðalhlutverkum í óperunni og hefur starfað í hátt í 30 ár í óperunni fékk lægri laun en söngvari með minna hlutverk sem þreytti sitt fyrsta hlutverk árið 2014. Söngvarar sem tóku þátt í uppfærslunni segja í samtali við Fréttablaðið að það væri gaman að fá að sjá launaviðmið óperustjóra þar sem þau höfðu aldrei heyrt um það. Dæmi er um söngvara, sem var í minnsta hlutverkinu í verkinu, fékk hærra kaup í uppfærslunni en söngkona sem var með aríu og því í stærra hlutverki.

Sjö fagfélög hafa bent Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra á kynbundinn launamun hjá Íslensku óperunni en ráðherra hefur ekkert gert í málinu. Fréttablaðið hefur reynt að fá viðbrögð ráðherra við málinu en hún hefur ekki tjáð sig um málið.

Áhyggjur með framtíð óperu

Nefnd um stofnun þjóðaróperu vinnur nú við að kanna kosti og galla stofnunar þjóðaróperu á Íslandi og á að skila af sér vinnu fyrir lok janúar.

Sviðslistafólk hefur lengi kallað eftir stofnun sérstakrar þjóðaróperu til að efla óperulist á Íslandi en óhætt er að segja að mikil óánægja hefur verið með rekstur og samninga Íslensku óperunnar við listamenn. Óánægjan náði hápunkti eftir sýknu í máli Þóru Einarsdóttur söngkonu sem stefndi Íslensku óperunni fyrir samningsbrot. Íslensk óperan hafði vitnað í samninga Félag íslenskra hljómlistarmanna í samningum sem gerðir voru við söngvar í sýningunni Brúðkaup Fígarós, en greiddi svo ekki samkvæmt töxtum þeirra. Klassís sendi í kjölfarið frá sér vantraustsyfirlýsingu á stjórn Íslensku óperunnar og óperustjóra.

Nefndarmenn í starfshópi um stofnun þjóðaróperu.

Söngvarar lýstu yfir áhyggjum af störfum nefndarinnar, þá sérstaklega vegna skorts á fagfólki úr óperusenunni innan nefndarinnar.

„Söngvarar þurfa að vera í fyrirrúmi í þjóðaróperu. Mér líst ekki alveg á hvernig nefnd um þjóðaróperu er samsett, það skýtur skökku við hversu fáir söngvarar eða fagfólk í óperu eiga þar sæti. Vonandi tekst þetta vel til, ég vil ekki dæma þetta fyrir fram en ég hef áhyggjur á því hvernig þetta lítur út,“ sagði Kristinn Sigmundsson stórsöngvari í samtali við Fréttablaðið.

Aðrir gagnrýna þá ákvörðun mennta- og menningarmálaráðuneytis að veita Íslensku óperunni færi á að tilnefna aðila í nefndina, þar sem kallað hefur verið eftir þjóðaróperu meðal annars vegna óánægju með stöðu listamanna vegna einokunarstöðu Íslensku óperunnar.

„Ef verið er að stofna þjóðaróperu þá er alveg spurning hvort Íslenska óperan eigi yfir höfuð að tilnefna einhvern fulltrúa í það ráð. Svo getur líka verið að Íslenska óperan þurfi bara hreinlega að hreinsa til hjá sér alla afstöðu gagnvart söngvurum áður en hún getur haldið áfram að vinna í eða taka þátt í því að stofna framtíðaróperu,“ sagði Ólöf Kolbrún Harðardóttir, fyrrverandi óperustjóri og einn stofnmeðlima Óperunnar.

Ráðherra ekkert gert í málinu

Sjö fagfélög listamanna hafa ítrekað leitað til Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra vegna aðfinnsluverðra stjórnarhátta Íslensku óperunnar.

Félögin krefjast þess að ráðuneytið taki skýra afstöðu varðandi framtíðarskipan óperustarfsemi á Íslandi svo ráðstöfun hárra upphæða af almannafé byggi á faglegum sjónarmiðum, bæði listrænt, laglega og stjónunarlega, og standist sömu kröfur og önnur opinber starfsemi á vettvangi menningar á lista.

Meðal mála sem félögin hafa áhyggjur af og hafa rætt um við ráðherra eru:

  • Kynjunum mismunað í launum
  • Samningsriftanir án viðunandi bótagreiðslna
  • Brot á lögum um höfundarétt
  • Skortur á framfylgni vinnuverndarlöggjafar
  • Skortur á ætlun um öryggi og heilbrigði á vinnustað — Engin áætlun gegn einelti
Gunnar Hrafnsson formaður FÍH, Ása Fanney Gestsdóttir formaður Klassís, Birna Hafstein formaður FÍL, Kolbrún halldórsdóttir, formaður FLÍ, Karl Ágúst Úlfsson formaður RSÍ, Þórunn Gréta Sigurðardóttir formaður TÍ og Hallveig Rúnarsdóttir formaður FÍT.