Kona var handtekin á byggingarsvæði við Lækjargötu eftir svakalega eftirför lögreglu um miðbæ Reykjavíkur. Talið er að konan hafi verið ein í bílnum.

Að minnsta kosti fjórir lögreglubílar veittu henni eftirför frá Klettagörðum og niður Sæbrautina sem lauk með handtöku við byggingarsvæðið á Lækjargötu, þar sem Hótel Reykjavík á að rísa, en þar stóð Íslandsbanki til margra ára.

„Ekkert verður gefið út meðan við erum að ná utan um málið,“ sagði lögregluþjónn á vettvangi. Lögreglumenn ræddu við verkamenn á byggingarsvæðinu.

Eftirförinni lauk við byggingarsvæðið á Lækjargötu.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Konan stal svörtum jepplingi af gerðinni Toyota Rav4, úr Klettagörðum í dag og ók niður Sæbrautina. Búið var að fjarlægja númeraplöturnar af bílnum.

Tveir lögreglubílar lokuðu í kjölfarið fyrir umferðina við Lækjargötu og Kirkjutorg klukkan 16 í dag. Ótalmargir ferðamenn stöldruðu við og fylgdust forvitnir með aðgerðum lögreglunnar eftir að lögreglubílarnir brunuðu niður Lækjargötu á eftir svarta jepplingnum.

„Ég sá eltingarleik lögreglu. Þarna voru ótalmargir lögreglubílar sem eltu bíl á Sæbrautinni. Ökumaðurinn var eins og brjálæðingur. Bíllinn hentist til og frá. Hann var á fljúgandi siglingu,“ sagði sjónarvottur sem fylgdist með eftirförinni frá skrifstofu sinni á Hverfisgötu við Hlemm.

„Bíllinn sikksakkaði eftir Sæbrautinni og margir lögreglubílar fóru á eftir honum. Það er mildi að enginn hafi slasast,“ sagði sjónarvotturinn í samtali við Fréttablaðið.

„Lögreglan brunaði fram hjá Lækjartorgi. Þetta var rosaleg eftirför. Svo kipptu þau ökumanninum út úr bílnum eftir að þau náðu að stöðva hann,“ sagði annar sjónarvottur.

Fréttablaðið/Sigtryggur Ari