Frá klukkan fimm í gærdag til fimm í nótt voru rúmlega hundrað mál skráð hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og níu aðilar eru vistaðir í fangageymslu. Á meðal þessara mála voru að minnsta kosti tvær líkamsárásir. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.

Tilkynnt var um líkamsárás klukkan tæplega þrjú í nótt á veitingahúsi í Hafnarfirði. Þar fékk maður glas í andlitið, en ekki er vitað hvort hann hafi hlotið áverka af. Kona, sem er grunuð um árásina, var handtekin og vistuð í fangageymslu.

Þá var tilkynnt um líkamsárás í Grafarvogi um hálftíuleytið, en þar er kona grunup um að ráðast á dyravörð. Hún var handtekin og vistuð í fangageymslu. Fram kemur að hún sé einnig grunuð um hótanir og fyrir að fara ekki að fyrirmælum lögreglu.

Eitthvað var um umferðarlagabrot, en í Breiðholti var maður grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Fram kemur Að lokinni sýnatöku hafi maðurinn verið frjáls ferða sinna og vísað út úr lögreglustöðinni, en hann fór ekki að fyrirmælum lögreglu þrátt fyrir að vera aðstoðaður af stöðinni og kom hann alltaf aftur. Að lokum var hann handtekinn fyrir að hlýða ekki fyrirmælum lögreglu og vistaður í fangageymslu lögreglu.