Kona hefur verið handtekin grunuð um að hafa sent Donald Trump Bandaríkjaforseta bréf sem innihélt eitrið ricin.

Greint var frá því á laugardag að bréf með hinu banvæna eitri hafi verið stílað á forsetann en það var stöðvað í áður en það náði til Trumps.

Konan var handsömuð þegar hún reyndi að keyra yfir til Bandaríkjanna frá Kanada með skotvopn í fórum sínum, að sögn löggæsluyfirvalda. Er gert ráð fyrir því að ríkissaksóknarar í Washington DC muni leggja fram kæru á hendur henni á næstu dögum.

Málið er til rannsóknar hjá leyniþjónustu og alríkislögreglu Bandaríkjanna. CNN hefur heimildir fyrir því að bréfið hafi verið sent frá Quebec í Kanada og innihaldið efni sem svipi til mulinna kristpálmafræja sem ricin sé unnið úr.

Yfirvöld í Kanada veita Bandaríkjamönnum aðstoð við rannsókn málsins. Rannsaka þeir nú einnig svipaðar sendingar til Texas sem taldar eru geta tengst sama sendanda.

Tvær sýnatökur hafa staðfest tilvist ricin í bréfinu sem stílað var á Trump í síðustu viku en allur póstur sem sendur er til Hvíta hússins er yfirfarinn í annarri byggingu áður en hann er fluttur á áfangastað.