Kona var leidd í lögreglubíl eftir mikil ólæti við bólusetningaröð við Suðurlandsbraut. Bólusetning þungaðra kvenna hófst þar klukkan níu í morgun. RÚV náði myndskeiði af atvikinu og greindi frá því að konan hafi veist að heilbrigðisstarfsfólki og látið öllum illum látum.

Í myndbandinu sést konan öskra yfir hópinn að bóluefnin séu eitur, að bólusetningarnar séu skaðlegar og að verið sé að myrða börn í móðurkviði. Þá herma heimildir RÚV að konunum sem voru að mæta í bólusetninguna hafi verið verulega brugðið og sumar hafi grátið.

Konan mætti með annarri manneskju við Suðurlandsbraut um svipað leyti og bólusetningarnar hófust. Lögreglan var kölluð til í látunum en í myndbandinu má sjá tvær lögreglukonur taka í hendurnar á konunni og draga hana í lögreglubíl.

Samkvæmt upplýsingum frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu er konan á lögreglustöð núna þar sem reynt er að fá hana til að segja til nafns. Hún hafi verið handtekin fyrir óspektir á almannafæri og fyrir að óhlýðnast lögreglu, til dæmis með því að neita að bera grímu og neita að segja til nafns.

Fréttin hefur verið uppfærð