Kona sem grunuð er um barnaþrælkun var handtekin af lögreglu síðasta þriðjudag en mun ekki sitja í gæsluvarðhaldi.

Barnaverndarnefnd lagði fram kæru á hendur konunni með beiðni um lögreglurannsókn á meintri barnaþrælkun, fjárdrætti og tilfinningalegu og sálrænu ofbeldi konunnar gagnvart þremur stjúpbörnum sínum.

Héraðsdómur Reykjaness úrskurðaði konuna í vikulangt gæsluvarðhald síðasta miðvikudag, þann 17. mars, en Landsréttur felldi úr gildi úrskurðinn daginn eftir. Að virtum gögnum málsins taldi Landsréttur ekki fyrir hendi rannsóknarhagsmunir til þess að úrskurða konuna í gæsluvarðhald.

Notaði laun barnanna í spilakassa

Lögreglan á Suðurnesjum segir grun um að konan hafi notið fjárhagslegs ávinnings af meintum brotum gegn börnunum. Konan hafi látið stjúpbörn sín vinna gríðarlega mikið um árabil, tekið launin þeirra og ýmist sent úr landi eða notað í spilakassa.

Lögreglan hefur aflað dómsúrskurðar um afléttingu bankaleyndar á banka- og greiðslukortareikningum konunnar og bíða gagna frá alþjóðlegum peningasendingafyrirtækjum. Börnin og faðir þeirra hafa þegar heimilað lögreglu að rannsaka reikninga í þeirra nafni og er verið að vinna úr þeim gögnum. Einnig hefur lögregla handlagt farsíma og fleira sem fannst við leit á heimili og starfsstöð konunnar. Við leit á heimili konunnar fundust 835 þúsund krónur í reiðufé.

Konan hefur verið yfirheyrð og er rannsókn í fullum gangi og hefur staðið yfir í rúma fjóra mánuði. Meint brot gegn börnunum eru umfangsmikil og telur lögreglan nauðsynlegt að rannsaka málið með ítarlegum hætti. Lögreglan krafðist gæsluvarðhalds og sagði líklegt að konan myndi torvelda rannsókn málsins og hafa áhrif á börnin og önnur vitni í málinu, sem eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu sökum ungs aldurs og tengsla við konuna.