Kona féll fram af svölum í Hólahverfi í Breiðholti í kvöld. Fréttablaðið náði tali af vitnum sem sögðu að karlmaður hafi hent henni niður af svölunum á steyptar tröppur.

Lögregla staðfesti í samtali við Fréttablaðið að kona hefði verið flutt á slysadeild og að karlmaður hafi verið handtekinn í Hólahverfinu í kvöld en vildi ekkert tjá sig frekar um málið.

Vitni sagði í samtali við Fréttablaðið að um Íslendinga hafi verið að ræða. Þrír lögreglubílar og fjórir sjúkrabílar hafi mætt á svæðið og að rætt hafi verið við nágranna. Heimildir Fréttablaðsins herma þá að um hafi verið að ræða svalir á annarri hæð hússins. Ekkert er vitað um ástand konunnar eins og er.