Laust fyrir klukkan sex í dag barst lögreglunni í Gautaborg í Svíþjóð beiðni um aðstoð lögreglu vegna þess að kona væri í þann mund að fæða barn á skyndibitastaðnum McDonald's í verslunarmiðstöðinni Nordstan í borginni.

Þegar lögregla kom á staðinn var barnið fætt og talsverður mannfjöldi hafði hópast í kringum konuna. Lögreglumaðurinn Christer Fuxborg hafði á orði við fréttastofu SVT að lögreglumenn hefðu þurft að stugga við ágengum áhorfendum með síma á lofti meðan konu og barni var komið út af skyndibitastaðnum og í sjúkrabíl. Aðspurður sagðist Fuxborg aldrei hafa fengið slíkt útkall áður.

Farið var með konuna og barnið undir læknishendur á sjúkrahúsi í nágrenninu.