Karlmaður á fertugsaldri var úrskurðaður í tíu daga gæsluvarðhald í dag fyrir að reyna að myrða unnustu sína. Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglu og var einnig fjallað um í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Maðurinn hefur margoft komið við sögu lögreglu og hlotið dóma fyrir ofbeldisbrot og heimilisofbeldi. Hann er grunaður um grófa líkamsárás, kynferðisofbeldi og heimilisofbeldi.

Lögreglan fór á vettvang í húsnæði í vesturhluta borgarinnar og fann þar konuna sem var færð alvarlega slösuð á sjúkrahús. Maðurinn var þar hvergi sjáanlegur, en hann fannst eftir leit í íbúð í öðru hverfi borgarinnar og var handtekinn um hádegisbil í gær.

Meint árás átti sér stað í gámum úti á Granda að sögn Vísis. Um er að ræða húsnæðisúrræði á vegum borgarinnar fyrir langt leidda fíkla.
Konan hefur verið útskrifuð af slysadeild og hefur verið komið í öruggt skjól.